Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 16:33:39 (7963)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[16:33]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að einhverjum sem fylgjast með störfum Alþingis finnist liggja beint við, vegna þess að við erum sammála þessu nefndaráliti, að við styðjum breytingar á lögum á orkusviði. En það er ekki svo einfalt. Það var ekki ágreiningur um það í iðnaðarnefnd að ef það frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja yrði að lögum þá yrði þetta frumvarp, um breytingar á lögum á orkusviði, líka að lögum. Þegar ljóst var að efnahags- og viðskiptanefnd mundi afgreiða frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja var ekki um annað að ræða en að það mál færi úr nefndinni sem við erum hér að ræða um, því að í því felast breytingar sem þurfa að fylgja hinu frumvarpinu. Þetta vildi ég að kæmi fram í upphafi míns máls en þar fyrir utan vildi ég segja fáein orð um þessi tvö mál því að þau fylgjast að.

Ég hef reyndar sagt það áður í sölum Alþingis að ekki sé tímabært að gera þær breytingar sem fólgnar eru í frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja. Það er nóg að minna á þá óvissu sem er nú uppi eftir breytingar á lagaumhverfi orkufyrirtækja í landinu, þar sem enginn veit enn um hversu mikið raforkuverð mun hækka. Eitt er þó ljóst, að það hækkar meira og minna um allt land vegna breytinga á starfsumhverfi sem þar hafa orðið. Það er því meira en lítið undarlegt að menn skuli vilja ganga þessa göngu til enda, með skattskyldu orkufyrirtækjanna, og bæta þeim hækkunum sem því fylgja ofan á þá hækkun á orkuverði sem fyrirséð er að muni ganga yfir.

Ég sé ástæðu til að halda að mönnum sé ekki alveg sjálfrátt með að ganga svo hart fram í þessu. Það er í raun ekki neitt sem rekur á að þetta gerist akkúrat núna. Það væri t.d. miklu skárra að sætta sig við að menn skoðuðu þetta mál á næsta ári þegar allar breytingarnar eru komnar fram, þegar hið svokallaða samkeppnisumhverfi er orðið með þeim hætti sem til er stofnað. Þá ætti að koma í ljós hvaða þróun verður með raforkuverð í landinu. En svo mikið liggur mönnum á að það má ekki bíða eftir þessu heldur er stjórnarmeirihlutinn ákveðinn í að koma skattskyldu á þessi orkufyrirtæki.

Eins og allir vita eru orkufyrirtækin í eigu sveitarfélaganna í landinu, að langmestum hluta. Það er t.d. mjög athyglisvert að sjá að þeir fjármunir hefðu komið í ríkissjóð á síðustu tveimur skattárum, hefðu allir komið frá fyrirtækjum í eigu sveitarfélaganna. Það eru ekkert litlir fjármunir, milli 1.100 og 1.200 millj. kr. hefðu farið í ríkissjóð frá þessum fyrirtækjum ef ég man þetta rétt. Þetta ætla menn sér að gera á sama tíma og sveitarfélögin í landinu kveina undan því að hafa ekki næga fjármuni til að sinna skyldum sínum.

Það er ástæða til að kalla eftir því að þeir sem styðja meiri hlutann á Alþingi útskýri betur fyrir þingi og þjóð hvers vegna mönnum liggur svona á og hvers vegna það er forgangsverkefni stjórnarmeirihlutans að skattleggja fyrirtæki sveitarfélaganna með þeim hætti sem hér er um að ræða. Ég vil fá að heyra meira um það. Ég tel að þetta sé ekki góð pólitík og mér finnst það óábyrgt af þeim sem hér stjórna málum að ætla að bæta þessari skattbyrði ofan hækkun á raforkuverði sem mun ríða yfir og allir vita að er að verða að veruleika. Það er ljóst sums staðar. Ég mundi halda að við værum að tala um hækkun á raforkuverði um að meðaltali, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, ekkert minna en svona 10%. Sums staðar er það miklu meira en sums staðar líka minna, sem betur fer.

En mörg af þessum fyrirtækjum tóku mark á því þegar því var til þeirra beint að halda aftur af sér við hækkun á orkuverði. Við eigum eftir að sjá hækkanir hjá þeim fyrirtækjum, líklega strax á næsta ári. Þá kemur í ljós hvort einhvers konar samkeppni verður um að tryggja sér viðskiptavini í framtíðinni og hvort eitthvað slíkt hefur áhrif á verðlagninguna eftir að þetta umhverfi er komið á í raforkugeiranum.

Það hvarflar að manni að Orkuveita Reykjavíkur er stærsta fyrirtækið sem þarna á hlut að máli, sem mundi greiða hæsta skattinn í ríkissjóð. Það hvarflar að manni að sumir sem styðja meiri hlutann telji ágætt að geta seilst í vasa Reykvíkinga í gegnum skattlagningu á Orkuveitu Reykjavíkur. En þeir eru reyndar að seilast í vasa fleiri en Reykvíkinga því að það eru fleiri sem eiga það fyrirtæki. Það er mikið umhugsunarefni að menn skuli ætla sér að skattleggja hitaveiturnar í landinu eins og ákveðið er að gera með þessu fyrirkomulagi, hitaveitur sem hafa einkaleyfi til að þjónusta fólkið sem kaupir af þeim heitt vatn. Þetta er auðvitað bein skattahækkun, bein orkuverðshækkun sem fylgir þessu fyrirkomulagi.

Ég tel að hér séu á ferðinni allt of lítið hugsaðar aðgerðir. Ég geri mér grein fyrir því, ég hef sagt það áður en vil endurtaka það, að í framtíðinni þurfi að komast á svipað fyrirkomulag í raforkugeiranum eins og í öðrum fyrirtækjarekstri í landinu. Ef það á að vera samkeppnisumhverfi í þessum geira þá þarf auðvitað líka að vera skattaumhverfi sem er sambærilegt við aðra atvinnustarfsemi í landinu.

En það tekur tíma að koma á því fyrirkomulagi sem hér er að stefnt. Það mun taka þó nokkur ár. Nú eru þessi fyrirtæki, eins og ég sagði áðan, að langstærstum hluta til í eigu sveitarfélaganna. Hér er einfaldlega verið að taka ákvarðanir um að skattleggja fólkið í sveitarfélögunum því að ekki munu sveitarstjórnirnar geta gert annað en að vísa þessari hækkun á neytendur sína. Það getur vel verið að mönnum finnist það ágætt, að geta komist í vasann hjá þeim sem versla við Orkuveitu Reykjavíkur en þarna eiga fleiri hlut að máli.

Hér er, hæstv. forseti, á ferðinni ótímabær breyting og ég verð að segja eins og er, að mér finnst að þeir sem ættu að standa í ístaðinu hafi ekki gert það. Ég beini því m.a. að Framsóknarflokknum vegna þess að Framsóknarflokkurinn á aðild að stjórn borgarinnar og þeir sem verða fyrir barðinu á þessari skattahækkun eru fyrst og fremst Reykvíkingar. Þeir munu þurfa að borga fleiri hundruð milljóna á ári í skatt af rekstri orkufyrirtækis, ekki bara skatt af rekstri fyrirtækisins heldur og af hitaveiturekstrinum. Hins vegar virðist sem framsóknarmönnum finnist það allt í góðu lagi. Mér finnst að þeim ætti ekki að finnast það.

Ég hefði talið affarasælast að menn hefðu látið málin liggja og biðu a.m.k. þangað til þeir hefðu yfirsýn yfir afleiðingar af öðrum breytingum á raforkusviðinu, og lágmarkið hefði verið að menn hefðu séð til fram á árið 2006 til að sjá árangurinn af þessum hlutum áður en lengra væri haldið. Hvernig á því stendur að menn hafa haldið áfram þessari göngu núna með bundið fyrir augun skil ég ekki, en mér finnst að það sé a.m.k. þannig að framsóknarmenn skuldi Reykvíkingum útskýringu á því hvers vegna þeir styðja niðurstöðuna. Já, og reyndar öðrum sem nota þjónustu fyrirtækisins, því þeir eru æðimargir í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta. Ég vildi að það væri ekki misskilið að stuðningur okkar við nefndarálit frá iðnaðarnefnd þýddi það að við styddum að breytingarnar gengju í gegn núna, það er ekki þannig. Við erum hins vegar raunsæir og vitum að verði málið sett í gegn og gangi til enda í sölum Alþingis verða þær breytingar á lögum á orkusviði sem um var fjallað í iðnaðarnefnd að ganga fram ásamt þeim breytingum. Ég vona að menn sjái að sér og fresti því að málin gangi yfir þangað til þeir sjá betur hvernig breytingar á orkusviði virka að öðru leyti og hversu miklar hækkanir verða á raforkuverði hjá neytendum um allt land.