Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 18:20:39 (7980)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:20]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er náttúrlega komið efni í ræðu og ég óska eftir orðinu í aðra ræðu, en ég ætla samt aðeins að svara hv. þingmanni.

Í fyrsta lagi er það rangt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð vilji bara eyða og eyða og komi aldrei með tillögur um fjármögnun. Það er rangt. Við höfum lagt fram skattafrumvörp um breytingar og breyttar áherslur í skattkerfinu og verðum ekki sökuð um þetta.

Varðandi það hvort stóriðjan sé á kostnað almennings höfum við deilt um það nokkuð oft í þessum sal. Menn hafa oft gleymt því þegar þeir eru að fagna auknum umsvifum á Austurlandi núna, sem skipta að sjálfsögðu það fólk máli sem þar kemur nærri, að þær eru fram til þessa allar með lánsfé á ábyrgð Íslendinga. Þetta eru lánspeningar. Þetta eru ekki einhverjir aðilar að koma inn með þessa peninga, þetta er lánsfjármagn. Og stóra spurningin er þessi, og um það hafa deilurnar staðið, hvort arðurinn af fjárfestingunum muni nægja til þess að greiða skuldirnar og færa okkur ávinning í kjölfarið. Það sem við höfum gagnrýnt er að þjóðhagslega hafi það dæmi aldrei verið gert upp af hálfu stjórnvalda. Ég reyndi margoft í efnahags- og viðskiptanefnd að spyrja ráðgjafastofnanir ríkisstjórnarinnar, Seðlabankann og aðrar ráðgjafastofnanir hvort útreikningar hefðu farið fram á virðisauka framkvæmdanna. Það hafði ekki verið reynt að reikna það út, en allir hagfræðingar sem komu á fund nefndarinnar og voru ekki svo ógæfusamir að starfa fyrir Framsóknarflokkinn eða vera í nefnd fyrir hann eða ríkisstjórnina voru gagnrýnir í garð framkvæmdanna, hægri vinstri.

Ég hlustaði á hv. þingmann (Forseti hringir.) og dró ályktanir af orðum hans og mun víkja að þeim aftur í síðara andsvari.