Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 23:39:24 (7991)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:39]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmaður vilji ekki skilja þetta mál. Hann er ekki vanur því að menn reyni að liðka fyrir þingstörfum eins og við gerum gjarnan í stjórnarandstöðunni en það þekkja menn ekki ýmsir í stjórnarliðinu, þ.e. með því að afgreiða þetta mál, sem við töldum þó ekki tímabært út af fyrir sig, úr nefndinni. Við vildum ekki gera það að verulegum ágreiningi en höfðum fyrirvara á nefndarálitinu eins og ég sagði áðan.

Óróleiki hv. þingmanns er auðvitað af allt öðrum ástæðum eins og ég vék að áðan. En bara til að menn geti glöggvað sig á hvað það er sem veldur óróleika hv. þingmanns þá segir hér í því merka viðtali sem ég vitnaði til áðan frá 25. janúar á þessu ári, með leyfi forseta:

„Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segist ekki trúa öðru en að Valgerður Sverrisdóttir kunngeri í umræðum á Alþingi tillögu til að sporna við mikilli hækkun á húshitunarkostnaði á landsbyggðinni. Þingmenn verða að vinda sér í að leysa það vandamál sem upp er komið.“ — Svo er talað hér um hvað þetta þýði og síðan er vitnað orðrétt til hv. þingmanns og þar segir, með leyfi forseta:

„Þetta frumvarp átti sér nokkurn aðdraganda. Sett var á fót 18 manna nefnd til þess að útfæra málið frekar. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka komu að málinu svo og ýmsir hagsmunaaðilar. Það varð þokkaleg sátt um niðurstöðu málsins og eina andstaðan kom frá fulltrúum orkufyrirtækja á þéttbýlissvæðum suðvestanlands sem töldu að þessi skipulagsbreyting mundi leggja auknar byrðar á þau fyrirtæki til þess að halda niðri húshitunarkostnaði á landsbyggðinni.“

Svo segir hér skömmu síðar:

„Einar Kristinn segist ekki treysta sér til þess að tímasetja það hvenær málið verði leyst.“ — Svo segir orðrétt: „Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mun flytja á þingi á fimmtudag skýrslu um málið og ég trúi ekki öðru en að í þeim umræðum verði kunngerðar tillögur í málinu. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið. Við getum ekki unað því að verðhækkanir upp á kannski 45% nái fram að ganga. Það eru aðilar sem eru að fá verðlækkanir, sérstaklega atvinnufyrirtæki.“ (Forseti hringir.) — Og svo áfram.

Herra forseti. Ég held að þetta skýri fyllilega óróleika hv. þingmanns.