Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 23:52:44 (7997)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:52]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi það að boðum hafi verið komið til hæstv. iðnaðarráðherra þá er það gott og vel. En nú er líklega liðin um klukkustund eða svo frá því ég setti þá ósk fram úr ræðustóli, að hæstv. ráðherra yrði kvaddur til umræðunnar ef ætlunin væri að halda henni eitthvað áfram. Það er auðvitað ekki nema hálf sagan sögð, að hæstv. ráðherra hafi verið gert viðvart um að nærveru hennar sé óskað. Ef ráðherra verður ekki við því að koma til umræðunnar þá er bara eitt að gera, þ.e. að fresta umræðunni. Það er algild þingvenja, að ef ráðherrar hafa ekki það við að reyna að greiða götu mála sinna í gegnum þingið, sérstaklega á síðustu dögum, þá þurfi ekki að vorkenna þeim varðandi það hvað verður um þeirra mál. Þeir hafa ekki við neina nema sjálfa sig að sakast ef þeir láta ekki svo lítið sem að sýna sig í þingsal. Þeir eiga auðvitað að sinna þingskyldum sínum eins og aðrir háttvirtir þingmenn.

Ég setti þessa ósk m.a. fram vegna þess að þegar við ræddum þetta mál og tengd mál fyrir nokkrum dögum, rúmri viku síðan, þá var hæstv. iðnaðarráðherra ekki til staðar til þess að eiga mætti við hana skoðanaskipti um þetta stóra mál, skattlagningu orkufyrirtækja og breytingar á ýmsum lögum sem því tengjast. Mér er þetta mjög í minni vegna þess að ég óskaði eftir ráðherranum úr þessum ræðustól og fékk gulan miða í pontuna með fallegri rithönd hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur þar sem hún upplýsti mig um að iðnaðarráðherra væri því miður erlendis og væri með fjarvist. Ég lét mér það lynda, geymdi miðann svona til öryggis og hugsaði: Nú, gott og vel.

En það getur ekki gengið að allur þessi stóri málapakki sem varðar skattlagningu orkufyrirtækja og breytingar á lögum sem honum tengjast fari í gegnum þingið, bæði við 2. og 3. umræðu, án þess að hæstv. ráðherra láti sjá sig. Það gengur ekki.

Varðandi hitt málið, fylgimálið sem er næst á dagskrá, þá gæti hæstv. ráðherra væntanlega vísað til þess að það sé flutt af hæstv. fjármálaráðherra og hafi verið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd en það á ekki við um þetta mál. Þetta mál varðar hreint og klárt hæstv. iðnaðarráðherra, er bandormur sem varðar breytingar á ýmsum lögum á orkusviði. Það er þess vegna málefnaleg og vel rökstudd krafa sem allar hefðir mæla með að orðið sé við að þessari umræðu sé ekki fram haldið og verði ekki lokið án þess að hæstv. ráðherra sé viðstaddur.

Með fullri virðingu fyrir framsögumanni iðnaðarnefndar sem hér hljóp í skarðið, hv. þm. Kjartani Ólafssyni, þá er nú mannfallið þvílíkt að framsögumaður á nefndaráliti er titlaður varaformaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann er fjarri góðu gamni, mjög fjarri góðu gamni. (Gripið fram í.) Formaður (Forseti hringir.) iðnaðarnefndar er skriðinn heim lasinn þannig að þetta mannfall meiri hlutans (Forseti hringir.) leiðir sjálfkrafa til þess, að mínu mati, forseti, að við ættum að segja þetta gott í bili.