Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Þriðjudaginn 03. maí 2005, kl. 23:56:14 (7998)


131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[23:56]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að taka undir það að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að mæta til að ræða þessi mál og í raun og veru bæði málin. Þau eru í raun og veru bæði á hans forræði. Þótt það heiti ekki svo að forminu til þá er þetta allt saman tengt þeirri breytingu á raforkusviðinu sem við höfum verið að fjalla um fyrr. Það málefni sem er nú er til umræðu er miklu frekar fylgifrumvarp síðara málsins sem á að ræða á eftir. Kannski hefði verið eðlilegt að menn hefðu rætt þessi mál saman og að hér hefðu þá verið mættir þeir sem til svara ættu að vera, þ.e. hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra einnig, vegna skattamálanna sem hér eru á ferðinni. En þannig er því ekki háttað.

Eins og kom fram áðan eru líka fjarri þeir sem ættu að svara fyrir afgreiðslu málsins úr nefnd, bæði formaður iðnaðarnefndar og varaformaður nefndarinnar, eru fjarri góðu gamni. Ég held þess vegna að nokkur rök séu fyrir því að menn haldi ekki mikið lengur áfram með þá umræðu sem hér fer fram né að taka til umræðu næsta mál á dagskránni í framhaldi af þessu, sem er engan veginn fyrirsjáanlegt því að nokkrir eru enn á mælendaskrá í þessu máli og þá er hitt málið eftir til umræðunnar. Það er þó að mörgu leyti miklu flóknara og viðameira. Þar eru breytingar á lögum á ferðinni en í því máli sem nú er til umræðu er brottfall laga alfarið á dagskránni en það fylgir þá hinu frumvarpinu.

Mér finnst tími til kominn að menn setji botninn í þessa umræðu og finni sér þann tíma sem hentar hæstv. ráðherra eða öðrum þeim sem hér ættu að vera við umræðuna.

Ég sé ástæðu til þess að nefna það, vegna þeirrar umræðu sem fram fór á undan í síðustu ræðum, en hv. þm. Einar Guðfinnsson gerði mikið úr því að afstaða okkar væri undarleg í þessu máli, að við skyldum hafa samþykkt að afgreiða það út úr nefndinni. Það segir ekkert um það að við styðjum málið heldur fyrst og fremst að ef það mál sem á að ræða hér við 3. umr. á eftir þessu máli fer í gegnum þingið þá eru engin rök fyrir öðru en því að þetta mál fái afgreiðslu í þinginu.