131. löggjafarþing — 121. fundur,  4. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[00:06]

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni á þeim starfsháttum sem forseti stendur hér fyrir í þinginu í kvöld. Það er núna, trúi ég, þrettán og hálf klukkustund síðan settur var fundur í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Ég verð að segja að lengri starfsdagur er vart boðlegur nokkrum þingmanni en þrettán og hálf stund við umfjöllun um alvarleg og mikilvæg mál þar sem gerhygli, svo notuð séu orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, er nauðsyn hverjum þingmanni og varla boðlegt að halda þessum fundi miklu lengur áfram, einkum þegar til þess er horft að boðað er til funda í þremur þingnefndum í fyrramálið klukkan hálfníu eða að átta stundum liðnum. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt fyrir okkur sem störfum í þessum sal að háttvirtur forseti, virðulegur forseti, geri okkur grein fyrir því hversu langan starfsdag við eigum hér fyrir höndum, hvort það er ein klukkustund eða tvær eða þrjár eða fjórar eða fimm, eða hvenær umræðu ljúki hér.

Hér hefur sömuleiðis eðlilega verið kallað eftir því að ýmsir hv. þingmenn séu viðstaddir umræðuna, m.a. hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir sem hér er því miður fjarri góðu gamni. Ég verð þó nokkuð að auka á þann lista, virðulegur forseti, því ég er að koma af fundi í borgarstjórn Reykjavíkur. Í borgarstjórn Reykjavíkur kom það í ljós við umræðu um þetta sama mál og hér er á dagskránni að aðeins tveir borgarfulltrúar í Reykjavík, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason, styðja þetta frumvarp. En gervallur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er algerlega andvígur þeim svívirðilegu skattaálögum sem hér er verið að leiða inn á Reykvíkinga enda hafa sjálfstæðismenn í Reykjavík gjarnan staðið dyggan vörð um að Hitaveitan í Reykjavík verði ekki skattlögð og notendur hennar í landssjóð sérstaklega umfram aðra starfsemi.

Ég hlýt að kalla eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason sé hér viðstaddur umræðuna og geri grein fyrir sínum sjónarmiðum og þá ekki síður hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem jafnframt er stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og hefur sem slíkur undirgengist þá skyldu að gæta hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur í hvívetna, en hefur hér við atkvæðagreiðslu greitt sérstaklega atkvæði með því að skattleggja skuli fyrirtækið um verulegar fjárhæðir sem óhjákvæmilega munu bitna á borgurum í Reykjavík.

Ég kalla eftir því, virðulegur forseti, ef ætlunin er svo fráleit að halda hér áfram umræðunni fram á nótt, (Forseti hringir.) að þessir tveir hv. þingmenn verði kallaðir hér (Forseti hringir.) til umræðunnar og þeim gert viðvart um að þeirra sé hér óskað.