Jarðgöng til Bolungarvíkur

Miðvikudaginn 04. maí 2005, kl. 12:15:44 (8057)


131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:15]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vegagerðin um Óshlíð sannar það að þrátt fyrir allkostnaðarsamar framkvæmdir hefur ekki fundist fullnægjandi lausn þar og ég styð að að því verði unnið að bæta þar úr.

Annars hlýt ég að vekja athygli á því að hér eru ræddar allmargar fyrirspurnir frá stjórnarþingmönnum um jarðgangaframkvæmdir hér og jarðgangaframkvæmdir þar, allt hin þörfustu mál. Menn velta jafnvel fyrir sér bortækni, sem ég held að við ættum að láta sérfræðingana um og ættum ekki að hafa of miklar áhyggjur af. Hlutverk okkar er fyrst og fremst að reyna að skaffa peninga til að hægt sé að ráðast í eitthvað af þeim fjölmörgu framkvæmdum sem stjórnarþingmenn hafa verið að spyrja um um allt land, á Austurlandi, Miðnorðurlandi og Vestfjörðum. Þetta eru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem eru með í höndunum vegáætlun sem skorin er niður upp á tæpa 6 milljarða kr. á þriggja ára tímabili, 2004–2006. Mér finnst, virðulegur forseti, að það hljóti að vera einhver takmörk fyrir því hversu langar umræður og margar fyrirspurnir menn geti lagt hér fram um óskalista sína þegar menn standa pólitískt ábyrgir að því að skera niður framlög til vegamála eins og raun ber vitni.