Skattskylda orkufyrirtækja

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 20:55:26 (8214)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[20:55]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið merkileg og staðið yfir í nokkurn tíma bæði hvað varðar þetta tiltekna mál og önnur frumvörp hliðstæð eða hliðarfrumvörp sem hér eru á ferðinni og lúta að því að tryggja það markmið sem hér er að stefnt, þ.e. að skattleggja orkufyrirtæki. Þegar maður hefur reynt að leita eftir og finna röksemdir hv. þingmanna meiri hlutans á hinu háa Alþingi hafa helst komið upp hugmyndir um að það þurfi að tryggja jafnræði á þessum markaði. Það er ekki nema von að mönnum hafi brugðið við því að flestir þekkja það að ríki og sveitarfélög reka nánast raforkumarkaðinn frá a til ö. Það eru örfáar litlar virkjanir, sem vega nú ekki þungt í orkubúskap landsmanna, sem ekki heyra undir eignarhald annaðhvort ríkis eða sveitarfélaga. Því hljóta menn að spyrja: Af hverju þarf að jafna samkeppni annars vegar orkubúskapar landsmanna í heild sinni við nokkrar litlar virkjanir sem til eru hér á landi? Þessi röksemdafærsla stenst vitaskuld engan veginn. Miklu nær hefði verið að hugleiða þá þær hugmyndir sem komu fram í efnahags- og viðskiptanefnd þess eðlis að nær væri að afleggja skatt á þessar fáu virkjanir sem til eru í stað þess að skattleggja allan orkubúskap landsmanna. Og bróðurparturinn af hinu sem einnig á að skattleggja, þ.e. hita og vatni, er með einkaleyfi þannig að ekki er samkeppninni fyrir að fara þar. Niðurstaðan, virðulegi forseti, er því sú að þær röksemdir sem meiri hlutinn hefur komið fram með halda á engan hátt og ég held að flestir sem hafa hlýtt á þessa umræðu og sett sig inn í hana geri sér fyllilega grein fyrir því að hér er aðeins verið að undirbúa það og auðvelda að í framtíðinni verði hægt að selja þessi fyrirtæki.

Það hefði verið miklu ærlegra og miklu heiðarlegra að koma fram með þær röksemdir og segja frá því að menn vilji og telji að hlutverki sveitarfélaga og ríkisins á þessu sviði sé lokið og nú geti einkaaðilar tekið við. Menn hefðu getað sagt að á sínum tíma hafi engir verið til þess að fjármagna framkvæmdir af þessum toga nema opinberir aðilar, sem og er rétt. En það hefði verið miklu ærlegra og heiðarlegra að segja að hlutverki þeirra á þessu sviði sé lokið og nú sé rétt að fara að huga að breytingu á eignarhaldi í þessum fyrirtækjum í stað þess að koma með fráleitar röksemdir eins og þær sem hér hafa komið fram og hafa verið hraktar svo um munar og eftir hefur verið tekið.

Ég vildi aðeins segja þessi örfáu orð hér í lokin eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu, eftir að hafa tekið þátt í henni og eftir að hafa setið í efnahags- og viðskiptanefnd og skrifað þar álit um þetta tiltekna mál. En það er vissulega athyglisvert og umhugsunarefni að hv. þm. Pétur Blöndal sem leiddi vinnuna í efnahags- og viðskiptanefnd, sá hinn sami og fagnaði ógurlega í þá tíð þegar skattalögum var breytt á þann veg að nú sér fyrir endann á eignarskatti, skuli nú leiða þá vinnu að skattleggja hvert einasta heimili í landinu, skattleggja lífsnauðsynjar, skattleggja í raun og veru það sem er svona grundvöllur og undirstaða þess að við fáum notið þess og getum lifað hér á landi við þær aðstæður sem Íslendingum eru oft búnar á veturna. Þetta er afar athyglisvert og vert að hafa í huga að á stundum er það nú þannig að það sem var sagt í gær á ekki endilega við í dag og það hefur vissulega verið dregið fram með mjög skýrum hætti í þessari umræðu.