Skattskylda orkufyrirtækja

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 10:54:47 (8230)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:54]

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er enn ein skattahækkun hæstv. ríkisstjórnar á almenning í landinu eins og hefur komið fram. Þetta mun áfram koma sér illa og sérstaklega fyrir íbúa landsbyggðarinnar, þ.e. breytingar á raforkulögum sem gerðar voru og sem voru m.a. rökstuddar með gögnum frá Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti. Orkureikningar þeirra sem kaupa orkuna frá Rarik áttu að lækka um 1,6%, en staðreyndin er sú að það er að hækka um allt að 25% hjá íbúum í dreifbýli.

Menn geta deilt á reikningana sem koma frá orkufyrirtækjunum eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur reynt að gera undanfarið og sagt að þetta sé ekki raunveruleikinn. Raunveruleikinn, virðulegi forseti, er einmitt sá að notendur sem hafa beðið í þessu tilfelli Rarik um að reikna út orkukostnað sinn eftir breytinguna með sömu notkun í kílóvattstundum fá 25% hækkun á orkureikningum sínum, eins og kemur hér fram í undirskrifuðu blaði frá Rafmagnsveitu ríkisins. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að segja að þetta verði ekki raunveruleikinn því eitthvað eigi eftir að breytast síðar þegar aðrir orkureikningar koma fram. Hæstv. ríkisstjórn er að taka miklu meira en skattalækkunina, sem hún er oft að guma sér af, af þessu fólki með því að hækka rafmagn til húshitunar. Aumt er þeirra hlutverk. Sérstaklega eru þetta kaldar kveðjur frá Framsóknarflokknum (Iðnrh.: ... málið sem er á dagskrá?) m.a. til bænda. Ég tek eftir því, hæstv. forseti, að iðnaðarráðherra er mjög órótt og ég skil það vel. (Iðnrh.: ... tala um skatta ...) Við erum að tala um þetta ákveðna frumvarp, virðulegur forseti, og ég skil að vel að orkuráðherrann sem jafnframt kallast byggðamálaráðherra stundum, skammist sín fyrir það sem hér er verið að gera. (Forseti hringir.) Ég segi nei við þessu frumvarpi.