Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 10:37:51 (8299)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:37]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má taka undir að þessar upplýsingar eru ágætar og þarfar inn í umræðuna um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að Ísland á að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem allra fyrst og náist samningur við bandalagið eigum við að sjálfsögðu að leggja hann fyrir dóm þjóðarinnar.

Það er fjöldamargt annað en lýðræðisleg aðkoma að lagasetningarferlinu sem knýr á um aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu. Almennir framtíðarhagsmunir Íslands kalla á það, að mínu mati, að við gerumst fullir aðilar að Evrópusambandinu. Hver eiga t.d. viðbrögð okkar Íslendinga að vera þegar Norðmenn sækja um aðild að Evrópusambandinu þriðja sinni og þegar EES-samningurinn þar með líður undir lok? Það væri fróðlegt að heyra viðbrögð þeirra sjálfstæðismanna og vinstri grænna, sem hér tala mjög gegn aðild að Evrópusambandinu, við því hver viðbrögð okkar Íslendinga eiga að vera þegar EES-samningurinn líður undir lok. Það blasir við að hann er á síðustu metrunum, það blasir við að Norðmenn munu sækja um aðild og líklega samþykkja. Menn hljóta að vera með viðbrögð við því hvað gerist þá fyrst við eigum ekki að mati þessara stjórnmálamanna að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eitthvað hlýtur það að kalla á.

Það væri ágætt að taka það inn í þessa umræðu um hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem ég tel að landið eigi hiklaust að gera. Þá væri einnig mjög ánægjulegt og upplýsandi að heyra viðbrögð framsóknarmanna við þessum málflutningi Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokksins í ríkisstjórninni, en Framsókn lýsti sem kunnugt er á landsfundi sínum fyrir nokkrum vikum yfir eindregnum vilja að margra mati til að halda áfram í Evrópuátt, þróun sem hlýtur að ljúka með aðild að Evrópusambandinu. Framsóknarmenn hljóta að skýra sjónarmið sín við þessa umræðu.