Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 10:40:08 (8300)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn um innleiðingu EES-gerða.

[10:40]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru afskaplega merkilegar upplýsingar og ég vil þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið.

Mér þykir þetta merkilegt í ljósi þess að ég held að ég sé búinn að heyra ég veit ekki hvað oft — ég hef náttúrlega eðli máls samkvæmt ekki talið það saman — að við tökum upp 80% af reglum og lögum Evrópusambandsins. Það hefur maður heyrt reglulega frá þingmönnum Samfylkingarinnar. Nú eru þetta 6,5%.

En áfram halda þingmenn Samfylkingarinnar. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom hér og hvað sagði hann? Hann sagði: Hvað gerist þegar Noregur gengur inn í ESB? Það er afskaplega athyglisvert að hlusta á þetta. Ég var á fundi með einum af forsvarsmönnum norska verkamannaflokksins um helgina, sem sagði að helstu rök þeirra sem vilja ganga í ESB í Noregi séu hvað þeir eigi að gera þegar Íslendingar ganga inn. Það er það sem syngur þar, því að engin önnur rök eru uppi. Það eru engar líkur á því, að því er virðist, að Noregur sé neitt á leiðinni í ESB. Og því síður, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spurði: Hvað gerist þegar EES-samningurinn líður undir lok? Hann er ekkert að líða undir lok. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það er ekkert sem bendir til þess, ekki neitt. Ég tel að þeir aðilar sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið ættu að fara með rétt mál. Þeir hafa ekki gert það þegar þeir hafa talað um hve mikið við tökum upp af lögum Evrópusambandsins. Þeir gera það heldur ekki þegar þeir láta að því liggja að Noregur sé að detta inn og því síður, virðulegi forseti, þegar þeir segja að EES-samningurinn sé að renna sitt skeið á enda. Ekkert af þessu er rétt. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að benda á þetta.