Neytendastofa og talsmaður neytenda

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 16:53:46 (8355)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[16:53]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarp þetta er hluti af umfangsmiklum breytingum á stofnunum sem sinna eftirliti með viðskiptum og markaðsmálum. Þessar kerfisbreytingar hafa sætt mikilli gagnrýni af hálfu þeirra sem starfa við þessi mál og skiptist gagnrýnin í tvö horn. Annars vegar telja margir þær kerfisbreytingar sem ráðast á í vera til óþurftar, að þær veiki eftirlitskerfið og geri það óskilvirkara. Gagnrýnin gengur einnig í þá átt að lagabreytingarnar séu ekki nægilega grundaðar, þar sé margt óljóst og margir endar óbundnir.

Varðandi þetta frumvarp skal sérstaklega tekið undir hið síðara. Með lagabreytingunni stendur til að sameina Löggildingarstofu og nýtt embætti talsmanns neytenda. Varla er bætandi á raunir Löggildingarstofu með því að gera henni að taka að sér verkefni án nægilegs fjármagns og án skilgreindra verkefna.

Þegar rafmagnseftirlit var einkavætt á síðasta áratug hófst mikil þrautaganga þeirra aðila sem gengist höfðu fyrir breyttu eftirliti með rafmagni. Raunir þeirra fólust í því að sannfæra landsmenn um að breytingarnar hefðu verið til góðs, þrátt fyrir að dregið hefði úr eftirliti og það orðið hlutfallslega dýrara í framkvæmd en áður var. Hlutverk Löggildingarstofu á þessu sviði var að setja staðla og fela svokölluðum skoðunarstofum að gera úrtakskannanir á því hvort farið væri að settum reglum. Löggildingarstofa hefur reynt að gera sitt besta við erfiðar aðstæður og tekist sæmilega að rækja hlutverk sitt miðað við þá löggjöf og fjármuni sem hún býr við. Reynslan af illa ígrunduðum kerfisbreytingum í rafmagnseftirlitinu ætti að vera víti til varnaðar að því leyti að ekki sé ráðist í umfangsmiklar kerfisbreytingar án þess að þær séu hugsaðar til enda.

Margt bendir til þess að enn eigi að hrapa að ákvörðunum um kerfisbreytingar. Þetta frumvarp bendir því miður til þess að svo sé. Sérstaklega er ástæða til að vara við því að talsmanni neytenda muni hvorki búin aðstaða né fjármagn sem geri honum kleift að rísa undir væntingum sem til þessa embættis yrðu gerðar ef kerfisbreytingarnar ná fram að ganga. Þá er verksvið hans illa skilgreint. Skal í þessu sambandi vísað í umsagnir sem birtar eru sem fylgigögn með þessu áliti og verður lítillega drepið á þær í nokkrum orðum á eftir.

Annar minni hluti hvetur til þess að afgreiðslu lagafrumvarpanna þriggja sem fjalla um lög og reglur á sviði viðskipta og neytendaverndar sem nú liggja fyrir Alþingi verði frestað og þess í stað verði reynt að ná víðtækri sátt og samstöðu um þær lagabreytingar og breytingar í stjórnsýslu sem þörf kann að vera á að gera.

Nú er ljóst að ekki er fallist á neina slíka frestun og að málið verður lögfest á þessu þingi en engu að síður er ástæða til að vekja athygli á þeim sjónarmiðum sem fram koma hjá helstu umsagnaraðilum. Í athugasemdum frá Alþýðusambandi Íslands, sem í reynd gagnrýnir ekki meginmarkmið stjórnvalda með þessum kerfisbreytingum — síður en svo, það gerir enginn — hafa menn efasemdir. Menn hafa almennt efasemdir um að þessi markmið nái fram að ganga með þeim breytingum og því fjármagni sem þeim fylgja.

Hér segir, með leyfi forseta, í álitsgerð Alþýðusambandsins:

„Alþýðusamband Íslands telur að vegna annarra verkefna sem Neytendastofu er ætlað að sinna sem ekki snúa beint að neytendamálum í hefðbundnum skilningi, svo sem rafmagnsöryggismálum, öryggi raforkuvirkjana, neysluveitna og raffanga, yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði auk þess að sjá um framkvæmd laga um vog, mál og faggildingu, sé hætta á að nýja stofnunin hafi ekki nægilegt bolmagn til að efla neytendamál og auka neytendavernd í samræmi við markmið laganna. Því er mikilvægt að stofnunin fái nægilegt fjármagn til þess að sinna neytendamálum og neytendavernd.

Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að viðskiptaráðherra skipi talsmann neytenda. Samkvæmt frumvarpsdrögunum er hlutverk talsmanns neytenda í megindráttum sambærilegt og getið er um í 3. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna. Eina frávikið er að talsmanni neytenda er ekki ætlað að beita sér fyrir rannsóknum á sviði neytendamála líkt og umboðsmanni barna er ætlað á sínu sviði, en Neytendastofu er ætlað að sinna því hlutverki. Embættisheitið „talsmaður“ á sér ekki fordæmi hér á landi, en almenningur þekkir hlutverk umboðsmanns í gegnum störf umboðsmanns barna og umboðsmanns Alþingis og hefur embættisheitið umboðsmaður áunnið sér ákveðinn sess á síðastliðnum árum. Erfitt er að sjá fyrir sér að opinber embættismaður geti verið talsmaður ákveðins hóps í þjóðfélaginu. Þess má einnig geta að umboðsmannsheitið er notað yfir sambærileg embætti á Norðurlöndunum. Alþýðusamband Íslands telur því með öllu óeðlilegt og óásættanlegt að nota embættismannaheitið talsmaður neytenda og leggur á það áherslu að notað verði embættismannaheitið umboðsmaður neytenda.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Neytendastofa annist dagleg störf og undirbúning mála fyrir talsmann neytenda. Ekki er gert ráð fyrir að talsmaður neytenda hafi eigið starfslið. Hætta er á að þetta takmarki sjálfstæði embættisins. Komi upp ágreiningur um forgangsröðun mála innan Neytendastofu undir forstöðu forstjóra Neytendastofu eykst hættan á því að mál dagi uppi hjá embættinu. Alþýðusamband Íslands telur eðlilegt að talsmaður neytenda hafi sjálfur heimild til að ráða til sín starfsfólk til að sinna undirbúningi mála og tryggja þannig sjálfstæði embættisins.

Varðandi starf talsmanns/umboðsmanns neytenda þarf að koma skýrar fram í 7. gr. að talsmanni neytenda er ekki ætlað að taka fyrir einstök deilumál milli aðila. En hafa mætti ákvæði …“ o.s.frv. Ég ætla ekki að rekja þetta nánar en hér er gagnrýnt það heiti sem talsmanninum er valið, eðlilegra að hann héti umboðsmaður. Það er óeðlilegt að embættismaður geti kallast talsmaður hóps í samfélaginu, eðlilegra sé að það séu frjáls félagasamtök sem nýti sér slík heiti. Síðan eru efasemdir um að grauta þarna saman verkefnum sem hvíla hjá Löggildingarstofunni núna og lúta að rafmagnsöryggismálum og öðru slíku við þessa almennu neytendavernd. Þetta eru sjónarmið frá Alþýðusambandi Íslands.

BSRB tekur eins og aðrir undir þau meginmarkmið sem ríkisstjórnin setur sér eða stjórnvöld með þessum kerfisbreytingum en varar við að menn ætli sér um of og bendir á að hraði og fljótræði hafi leitt til slæmra mistaka við uppstokkun í stjórnsýslunni. Í álitsgerð BSRB er vísað í reynsluna af einkavæðingu rafmagnseftirlitsins sem óumdeilanlega var mjög slæm. Það er ekki rétt hjá mér að segja óumdeilanlega, við deildum svolítið mikið um það hvort svo hafi verið en gerðar voru kannanir … (Viðskrh.: Það tókst mjög vel.) Það tókst mjög vel, segir hæstv. viðskiptaráðherra, tókst afskaplega vel enda þótt óumdeilt sé að núna séu skoðaðar færri íbúðir, færri stofnanir, færri fyrirtæki en áður var gert, miklu færri og með hlutfallslega miklu meiri kostnaði auk þess sem starfsemin hefur verið færð frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Það voru rafveiturnar sem sinntu þessum verkefnum — ég er feginn því að hæstv. ráðherra minnti mig á þetta. Það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu. Þetta eftirlit, rafmagnseftirlitið, var hjá rafveitunum víðs vegar um landið. Nú er búið til nýtt kerfi þar sem Löggildingarstofan á að setja tiltekna staðla. Hún felur skoðunarstofum að gera úrtak til að kanna að hvaða marki rafverktakar sinni þessum skyldum sínum og fari að þeim stöðlum sem þeim er gert að starfa samkvæmt.

Þessar skoðunarstofur sem eru mjög fáar, hafa verið tvær til þrjár, eru allar á höfuðborgarsvæðinu. Það fjármagn sem Löggildingarstofan hefur síðan haft til ráðstöfunar til að fjármagna eftirlitið hefur því þurft m.a. að fara í ferðakostnað og dýrar skoðunarferðir. Til eru mörg dæmin um þær víðs vegar um landið. Þetta eftirlit er með öllu ófullnægjandi og sannast sagna hélt ég að flestir viðurkenndu það þó að þeir vonist til þess að kerfið komi til með að ganga upp síðar meir. Ég held hins vegar og er ég þar sammála meiri hluta rafverktaka í landinu — gerð var könnun á afstöðu þeirra sem töldu að skrefið sem stigið var fyrir fáeinum árum hafi verið til ills og vildu breytt samkomulag. (Viðskrh.: Hver framkvæmdi þá könnun?) Hver framkvæmdi þá könnun? spyr hæstv. ráðherra. Það voru tveir þingmenn sem gerðu það, hv. fyrrverandi þm. Gísli S. Einarsson og sá sem hér stendur. Við sendum út fyrirspurn til rafverktaka í landinu, fórum eftir skrám sem til er um þá eins og við þekktum þær bestar og til þeirra sem sinna þessum málum sérstaklega og fengum svör til baka sem ég tel hafa verið óyggjandi. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar aldrei gert neina slíka könnun. Hún hefur ekki ráðist í neina slíka könnun. Hins vegar var sett niður nefnd til að fara yfir þessi mál á sínum tíma og þar voru fengnir utanaðkomandi aðilar, þar á meðal einstaklingur sem starfaði þá í ráðuneytinu. Hann setti fram minnihlutaálit sem var mjög gagnrýnið. Samstundis og það minnihlutaálit birtist lauk verkefnum þessa einstaklings hjá ráðuneytinu. Það var reyndar í tíð forvera hæstv. ráðherra,Valgerðar Sverrisdóttur, en þá lauk verkefnunum samstundis. Þetta minnir á vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar og afstöðu til þeirra stofnana sem hafa leyft sér að gagnrýna ríkisstjórnina eða það sem hún aðhefst.

Minnst er á slæmar afleiðingar einkavæðingar rafmagnseftirlitsins sem var fengið Löggildingarstofu til umsjónar og minnt er á það í umsögn BSRB að fulltrúar Alþýðusambandsins, BSRB og Neytendasamtakanna hafi komið saman til fundar til að ræða þessar kerfisbreytingar og lagt í sameiningu áherslu á að málinu yrði frestað og reynt að skapa breiða þverpólitíska samstöðu um málið þar sem auk þess umræddir aðilar kæmu að.

Einu atriði, sem fram kemur í ábendingum BSRB, hefur þegar verið orðið við í breytingartillögum eftir því sem ég best hef séð og það er að í frumvarpinu sjálfu er gert ráð fyrir að forstöðumaður Neytendastofu skuli hafa háskólamenntun, alveg óskilgreint hver sú menntun sé. Nú er gerð breyting á þessu sem ég tel vera mjög til framfara. Þetta hefur tíðkast í lögum um opinberar stofnanir á undanförnum árum að festa það í lögin að forstöðumenn skuli hafa háskólamenntun. Ekki er sagt í hverju, hvort það er danska, franska, gríska eða fornleifafræði eða hvað það eiginlega er, hvort það er á sviði sem stofnunin starfar, heldur skuli þeir bara hafa háskólamenntun. Eðlilegra er að vísa til þess að forstöðumaður skuli hafa reynslu og menntun sem kemur að gagni í starfinu. Ég tel þetta vera breytingu sem er til góðs og í samræmi við ábendingar BSRB.

Að lokum er svo umsögn þess aðila sem mest kemur að þessum málum, það eru Neytendasamtökin. Neytendasamtökin benda á að þau hafi um árabil barist fyrir stofnun embættis umboðsmanns neytenda til samræmis við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Neytendasamtökin benda á að samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi stendur til að setja á fót nýja stofnun, Neytendastofu, til að taka við hluta af verkefnum Samkeppnisstofnunar og þeim verkefnum sem nú eru unnin hjá Löggildingarstofu. Neytendasamtökin taka síðan undir yfirlýst markmið frumvarpsins, þ.e. að efla neytendavernd í landinu en óttast að sú skipan mála sem frumvarpið leggi til sé ekki sú heppilegasta eða sú sem best sé til þess fallin að vernda hagsmuni neytenda. Neytendasamtökin leggja síðan fram tillögur í fimm liðum.

Í fyrsta lagi vilja þau að fallið verði frá heitinu talsmaður og líkt og Alþýðusambandið telja þau eðlilegra að tala um umboðsmann. Neytendasamtökin leggja áherslu á að verkefni Löggildingarstofu verði ekki færð til Neytendastofu þar sem þau samræmast illa verkefnum sem eðlilegt er að slík stofnun sinni. Í þriðja lagi benda Neytendasamtökin á að eðlilegt sé að stefnumótun neytendamála sé hjá viðskiptaráðuneytinu og Alþingi en ekki hjá Neytendastofu eins og ráðgert er með frumvarpinu. Í fjórða lagi leggja Neytendasamtökin til að meginhlutverk umboðsmanns/talsmanns neytenda verði að hafa eftirlit með lögum um óréttmæta viðskiptahætti eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og í fimmta lagi lúta aðrar athugasemdir samtakanna því að veita umboðsmanni frekari heimildir til samræmis við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum og efla sjálfstæði hans.

Í þessum umsögnum gætir nokkurs misræmis á milli þeirra aðila sem hér hefur verið vitnað til en þeir eru í grundvallaratriðum sammála um meginstefnuna og sammála um að eðlilegt hefði verið að Alþingi gæfi rýmri tíma og aðkomu fleiri aðila að lagasmíðinni en gert hefur verið.

Ég ætla ekki að fara nánar í þetta. Neytendasamtökin útlista mál sitt á allítarlegan hátt í fylgiskjali sem birtist með því minnihlutaáliti sem ég tala fyrir. Þar er vikið að verkefnum Löggildingarstofu, stefnumótun, eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og síðan eru athugasemdir við einstakar greinar.

Að lokum þetta. Mér finnst það versta við frumvarpið vera hve óljóst það er þegar kemur að talsmanni neytenda, hvaða nafni sem hann kemur til með að heita í framtíðinni, hver verkefni hans eru, hvert verksvið hans er og hver tengsl hans eru við aðra starfsemi Löggildingarstofu. Mér finnst þetta vera óljóst. Mér finnst frumvarpið hálfgerður bastarður að þessu leyti og út á það ganga reyndar þær athugasemdir sem fram hafa komið. Það eru ekki allir álitsgjafar ósammála þeim grundvallarbreytingum sem verið er að ráðast í. Þeir eru ekki endilega ósammála því en finnst margt vera mjög óljóst í frumvarpinu og ófrágengið og undir þann þátt gagnrýninnar vil ég sérstaklega taka.