Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 18:20:14 (8370)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[18:20]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1366. Þetta er mál 617, tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og samninga EFTA-ríkjanna um framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XIV. viðauka, bókun 21 og bókun 23 við EES-samninginn frá 2. maí 1992, samning EFTA-ríkjanna frá 24. september 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004, um breytingu á bókun 21 og bókun 23 við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og samning EFTA-ríkjanna frá 3. desember 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Nefndin fékk til fundar við sig þau Kristján Andra Stefánsson og Finn Þór Birgisson frá utanríkisráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu S. Lárusdóttir frá viðskiptaráðuneyti, Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi prófessor, og Stefán Má Stefánsson prófessor.

Þessar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og samningar EFTA-ríkjanna miða að því að fella inn í regluverk EES-samningsins og fylgisamninga hans umfangsmiklar breytingar sem nýlega hafa orðið á framkvæmd samkeppnisreglna Evrópusambandsins, m.a. með það að markmiði að draga úr miðstýrðu samkeppniseftirliti og færa það í auknum mæli heim til aðildarríkjanna. Með þeim breytingum sem verið er að gera verður eftirlitsstofnun EFTA tryggðar sambærilegar valdheimildir og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gagnvart aðildarríkjunum í þeim málum sem hér um ræðir.

Í þessum breytingum felst m.a. að samkeppnisyfirvöldum og dómstólum í EFTA-ríkjunum verður heimilt að beita samkeppnisákvæðum EES-samningsins að fullu. Íslensk samkeppnisyfirvöld geta því afgreitt mál á grundvelli samkeppnisreglna EES-samningsins í tilfellum sem áður heyrðu eingöngu undir Eftirlitsstofnun EFTA. Þannig verður valdsvið íslenskra samkeppnisyfirvalda aukið frá því sem hingað til hefur gilt. Þrátt fyrir þetta mun áfram gilda sama verkaskipting milli Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB sem kveðið er á um í 56. gr. EES-samningsins.

Þar sem verið er að fela innlendum samkeppnisyfirvöldum víðtækara vald til að beita samkeppnisreglum EES-samningsins voru sett sérstök ákvæði til að tryggja samræmda beitingu og túlkun reglnanna með það fyrir augum að koma í veg fyrir ólíkar niðurstöður. Í nýju reglunum er því gert ráð fyrir að innlend yfirvöld og dómstólar geti í ákveðnum tilfellum verið bundin af ákvörðunum sem Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum EFTA-dómstóllinn hafa tekið í sama máli.

Málið var ítarlega rætt á fundum nefndarinnar, einkum sá þáttur sem varðar hugsanlegt framsal á ríkisvaldi til alþjóðastofnana eða öllu heldur takmörkun á ríkisvaldi. Nefndin hélt m.a. sameiginlegan fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem hafði til meðferðar frumvarp til samkeppnislaga. Þar var m.a. farið yfir lögfræðiálit Davíðs Þórs Björgvinssonar, fyrrverandi prófessors og nú dómara hjá Mannréttindadómstólnum. Þá ræddi nefndin málið einnig við Stefán Má Stefánsson prófessor.

Meginniðurstaða lögfræðiálits Davíðs Þórs Björgvinssonar var að slík takmörkun á ríkisvaldi væri heimil að því gefnu að í íslenskum rétti væri í gildi venjuhelguð regla um heimild löggjafans til að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Að mati álitsgjafans var talið að slík regla gilti samkvæmt íslenskum rétti en hins vegar væri inntak hennar og ytri mörk alls ekki skýr.

Það er mat meiri hlutans að þar sem hér er um að ræða sams konar mælikvarða á heimild löggjafans til takmörkunar á ríkisvaldi og áður hefur verið beitt við lögfestingu EES-samningsins árið 1993 og við undirbúning að þátttöku í Schengen-samstarfinu 1999 sé unnt að fallast á að Alþingi, sem æðsti handhafi löggjafarvaldsins, hafi heimild til að samþykkja slíka skuldbindingu sem felst í að taka yfir framangreinda reglu. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að ákveðin óvissa ríkir um þessa heimild löggjafans til að takmarka ríkisvaldið. Forsenda meiri hlutans er að til staðar sé slík venjuhelguð regla við túlkun stjórnarskrárinnar sem lýst er ítarlega í lögfræðiáliti Davíðs Þórs Björgvinssonar. Jafnframt telur meiri hlutinn að Alþingi verði einnig að líta til þess hvernig hagsmunum íslensks viðskiptalífs sé best borgið á alþjóðavettvangi en samstarfið á grundvelli EES-samningsins er ákaflega mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf.

Loks má geta þess að þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir málinu þann 10. mars síðastliðinn lýsti hann þeirri skoðun sinni að brýnt væri að fjallað væri um og leyst úr álitamálum um meðferð valdheimilda ríkisins í samskiptum við aðrar þjóðir og fjölþjóðlegar stofnanir. Þá benti hann einnig á að ákvæði stjórnarskrárinnar um heimildir íslenska ríkisins til að gera samninga við önnur ríki væru einmitt atriði sem stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra væri rétt að skoða.

Frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra til nýrra samkeppnislaga sem innleiðir efnisreglur þeirra ákvarðana sem þingsályktunartillagan fjallar um hefur fengið ítarlega umræðu á Alþingi svo ekki er ástæða til að fara dýpra í efnisatriði þessa máls þar sem helstu atriði ættu þegar að hafa komið fram við umræðu um það mál. Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits meiri hlutans.

Hæstv. forseti. Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Drífa Hjartardóttir, Gunnar Birgisson og Jónína Bjartmarz en Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir með fyrirvara.