Almannatryggingar

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 20:34:20 (8388)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:34]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nefna að ég var ekki nógu skýr hér áðan en í mörg undanfarin ár hefur þessi fjárhæð til að styrkja bifreiðakaup aldrei farið upp fyrir 200 millj. kr., fyrr en árið 2003. Þá fór hún upp í rúmar 500 millj. kr. og á árinu 2004 var hún tæpar 500 millj. kr. Hún hafði aldrei farið upp fyrir 200 millj. kr. fram að því.

Fyrirvari hv. þingmanns gengur enn og aftur út á að reglugerðarleiðin sé notuð til að skerða kjör þeirra sem treysta m.a. á greiðslur úr sjúkratryggingu almannatrygginga. Þess vegna vil ég enn og aftur árétta að ástæðan fyrir því að þetta frumvarp kemur fram er sú að sumir kostnaðarliðirnir eru undir áætlun, innan ramma fjárlaganna, og ráðherra er að nýta 45 milljónir, það má kalla það eins konar afgang, til að opna fyrir þessa bættu þjónustu við ellilífeyrisþega með föstu tanngervunum, sem áður var bannað að taka þátt í. Það hefur líka komið fram, við meðferð málsins, að mörg undanfarin ár, með stoð í 36. gr. almannatryggingalaga, hefur ráðherra gert betur. Í staðinn fyrir að greiðsluþátttaka sé bundin við 15 og 16 ára þá hefur greiðsluþátttakan verið fyrir 18 ára. Sjúkratryggingarnar hafa einnig tekið 100%, samkvæmt gjaldskrá ráðherra, þátt í kostnaði við tannlæknisþjónustu hjá þeim sem eru inni á sjúkraheimilum og eru langsjúkir.

Þvert á móti hefur sveigjanleikinn tryggt betri þjónustu, þjónustu sem er meira í takt við nútímaþróun í tannlækningum og með honum er fjárlagaramminn nýttur til fulls.

Ég ætla að segja það enn og aftur að það er fyrst og fremst fjárlagaramminn, fjárheimildir Alþingis, sem ráða því hvert umfang sjúkratrygginganna er, í tannlæknisþjónustu eins og öðru.