Almannatryggingar

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 20:37:48 (8390)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[20:37]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég skrifa ekki undir þetta nefndarálit þótt ég eigi sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd og hafi verið viðstaddur þegar málið var afgreitt. Ég er á móti því af tveimur ástæðum.

Í fyrsta lagi kemur fram í greinargerð fjármálaráðuneytisins, fylgiskjali, að óljóst sé hversu stór hluti muni nýta sér þessi réttindi og að 40 þúsund einstaklingar sem falli í þann hóp geti nýtt sér þetta. Sé einungis gert ráð fyrir að 10% þeirra noti réttinn og fái bætur þá gætu útgjöld ríkissjóðs verið 200–240 millj. kr. en ekki 40 millj. kr. eins og hér hefur verið rætt um. Það er í fyrsta lagi af umhyggju fyrir ríkissjóði sem ég stend ekki að nefndaráliti.

Seinni ástæðan er vegna öllu alvarlegra máls. Umræðan á Alþingi gengur út á að öryrkjar eigi alltaf bágt. Það er nánast sama hvernig um er rætt og sama hvað gert er, þeir eiga alltaf bágt. Þannig er það bara. Ef notuð er reiknivél sem Tryggingastofnun ríkisins hefur á heimasíðu sinni, tr.is., og reiknað með því að maður sem hefur 240 þús. kr. á mánuði í tekjur, sé hann 75% öryrki, þá kemur nokkuð merkilegt í ljós. Það er svo merkilegt, herra forseti, að í dag mega menn hafa tekjur þótt þeir séu öryrkjar vegna þess að örorkan miðast eingöngu við læknisfræðilegt mat en ekki tekjutap. Ef maður er með 240 þús. kr. á mánuði þá fær hann tekjutryggingu. Sé hann er fertugur þá fær hann tekjutryggingu og ýmislegt fleira, samtals 4.900 kr. Hann er þá kominn með 245 þús. kr. í tekjur. Ef hann er hins vegar er tvítugur þá horfir málið þannig við að þingmenn, í visku sinni, stóðu að því að koma með aldurstengda örorkuuppbót sem ég var eindregið á móti á sínum tíma. Hún er að mínu mati arfavitlaus. En ef hann er tvítugur þá fær hann aldurstengda örorkuuppbót. Þá fær hann 23 þús. kr. á mánuði til viðbótar. Hann er sem sagt með 263 þús. kr. á mánuði. Þetta geta allir þingmenn reiknað út á tr.is og hafa örugglega gert það og skilja þetta í hörgul að sjálfsögðu.

Þannig að maður með 264 þús. kr. á mánuði fær tekjutryggingu og þar með fær hann þetta, ásamt fjölda annarra bóta, t.d. bílastyrk og annað slíkt. Nú er það þannig að meðallaun, samkvæmt ASÍ-taxta, eru 260 þús. kr. eða voru það fyrir stuttu síðan þegar ég skoðaði það síðast. Þannig er meðaljóninn, vinnandi meðalmaður, með nákvæmlega sömu tekjur. Það stendur ekki til að hann fái þessar bætur sem geta numið 60 þús. kr., 75% af 80 þús., 60 þús. kr. fyrir þessar bætur. Hann þarf að borga tannlækningar sínar að fullu. Hann skal líka borga þetta með sköttunum sínum.

Ég held, herra forseti, að hv. þingmenn hafi í sumum tilfellum skotið langt yfir markið. Þeir ættu að fara að skoða hvað þeir eru búnir að samþykkja og fara öðru hvoru inn á Tryggingastofnun ríkisins og athuga ýmis dæmi, t.d. þessi með öryrkjana. (Gripið fram í.) Vissir hópar eru oftryggðir en aðrir látnir borga. Ég get ekki staðið að þessu af þeirri ástæðu. Það er fjöldi fólks með tekjur undir 240 þús. kr. á mánuði, að maður tali nú ekki um 260 þús. kr. Það er fjöldi fólks og hann skal borga tannréttingar sínar og annað slíkt, gullbrýr og annað, að fullu. En öryrkjar skulu fá afslátt af því að þeir fá tekjutryggingu. Þetta er náttúrlega ekki sanngjarnt eða réttlátt, herra forseti. Þeir sem vinna á fullu og borga auk þess iðgjald í lífeyrissjóð af sínum tekjum, sem öryrkinn gerir ekki, 4% iðgjald, félagsgjald í stéttarfélag sem öryrkinn borgar ekki heldur — öryrkinn fær undanþágu — skulu borga tannréttingar sínar að fullu og auk þess borga með sköttunum sínum fyrir öryrkja. Þess vegna segi ég nei við þessu.