Tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans

Þriðjudaginn 10. maí 2005, kl. 11:05:31 (8455)


131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans.

800. mál
[11:05]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að umhverfisyfirvöld á Íslandi taka fyrirmæli fastanefndar Bernarsamningsins alvarlega og það liggur alveg fyrir hver fyrirmælin eru frá því á síðasta fundi og þau mál eru til skoðunar í umhverfisráðuneytinu eins og ég greindi frá í fyrri ræðu minni. Hvað snertir t.d. Kárahnjúkavirkjunina og umhverfið þar er þegar eftirlits- og vöktunarnefnd þar að störfum. Ég tel því að verið sé að vinna markvisst í þessum málum.

Ég vil líka minna á að á sínum tíma var Eyjabakkasvæðinu þyrmt vegna þess að þar eru mjög mikilvæg svæði m.a. fyrir heiðagæsina og lífríki landsins. Við megum ekki gleyma því að þannig standa málin.