Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 11:21:05 (8528)


131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:21]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er með yfirlýsingu frá mér og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, Bjarna Benediktssyni og Birgi Ármannssyni.

Undirritaðir fagna yfirlýsingu formanna ríkisstjórnarflokkanna og samgönguráðherra um að fjármögnun Sundabrautar verði tryggð með sérstökum hætti. Sundabrautin er stærsta einstaka verkefnið á sviði samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu og tilkoma hennar mun létta á umferð og auðvelda samgöngur, ekki einungis fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, heldur einnig alla landsmenn sem sækja þjónustu á svæðið. Verkefnið kostar í heild allt að 17 milljarða en stofnkostnaðarframlög í vegáætlun 2005–2008 hljóða upp á um það bil 31 milljarð. Ekkert á að geta komið í veg fyrir að farið verði í framkvæmdina um leið og skipulagsyfirvöld í Reykjavíkurborg ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu.

Fyrir liggur að mörg þörf samgönguverkefni bíða framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Mörg brýnustu verkefnin hafa tafist í meðförum R-listans eða hreint og beint verið hafnað af því stjórnmálaafli. Er þekktasta dæmið mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut/Miklubraut þar sem borgaryfirvöld hreinlega neituðu að taka við fjármunum í þá framkvæmd. Af einstökum verkefnum sem eru brýn má t.d. nefna gatnamót Vesturlandsvegar og Suðurlandsbrautar, mislæg gatnamót við Reykjanesbraut og að ljúka tvöföldun Vesturlandsvegar en álag á hann mun aukast mjög á næstu árum.

Samgönguáætlun er eins og nafnið gefur til kynna áætlun og reynslan hefur sýnt okkur að henni hefur oft verið breytt umtalsvert. Við áskiljum okkur allan rétt til að berjast fyrir því að vegabótum innan höfuðborgarsvæðisins verði flýtt og auknir fjármunir færðir til vegaframkvæmda á svæðinu. (Gripið fram í.)