Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 11:48:31 (8544)


131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Við þingmenn Samfylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu höfum lengi gagnrýnt það hve afskipt höfuðborgarsvæðið hefur verið í fjármagni til vegaframkvæmda. Þessu verður að breyta, virðulegi forseti, því að nú er nóg komið og við segjum: Hingað og ekki lengra. Það er full ástæða til að átelja harðlega að ekki skuli gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna búa, m.a. við Sundabrautina sem er ekki aðeins mikilvæg fyrir höfuðborgarsvæðið heldur fyrir landsbyggðina einnig.

Fjármagn til höfuðborgarsvæðisins eins og ráð er fyrir gert í þessari samgönguáætlun til ársins 2008 er fullkomlega óeðlilegt, og gróf móðgun við höfuðborgarsvæðið og við umferðaröryggi á því.