Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 14:13:04 (8581)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:13]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vestrænar þjóðir viðurkenna flestar að leynd um fjármál stjórnmálaflokka bjóði heim hættunni á því að þeir sem starfa innan flokkanna falli fyrir þeirri freistingu að hygla sérhagsmunum á kostnað almennings. Krafan um opinber fjármál íslenskra stjórnmálaflokka verður sífellt háværari, enda fjölgar þeim sem halda því fram að hagsmunaaðilar gefi hugsanlega stórar fjárhæðir til áhrifamikilla stjórnmálaflokka hér á Alþingi.

Í skýrslu forsætisráðherra sem hér er til umræðu er að finna einkennilegar setningar sem jaðra við að lýsa ótrúlegum barnaskap séu þær á annað borð settar fram í fullri alvöru. Kannski er þetta frekar skrifað til að þyrla upp ryki og draga athygli fólks frá kjarna málsins. Í skýrslunni er m.a. talað um að hér hafi orðið miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi á undanförnum áratugum og að stórlega hafi dregið úr hættu á spillingu tengdri stjórnmálastarfsemi, það sé búið að losa viðskiptalífið úr einhverjum miðstýringarviðjum leyfisveitinga og úthlutunarkerfa sem búi núna við lagaumhverfi sem sé sambærilegt við nágrannalöndin. Hér segir m.a.: „Úthlutanir lóða og jafnvel almennar starfsmannaráðningar hjá hinu opinbera voru í mörgum tilvikum í höndum stjórnmálamanna fyrr á tíð en slíkt heyrir almennt sögunni til.“

Virðulegi forseti. Svona má lengi telja upp úr þessari skýrslu en mig langar til að spyrja hvort fólk trúi virkilega þessu, til að mynda í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa á Íslandi á undanförnum mánuðum og missirum. Nei, það er ekki búið að framkvæma þvílíkar endurbætur á löggjöfinni í þessu landi að stjórnmálamönnum og þar með töldum ráðherrum sé nánast gert ókleift að misnota aðstöðu sína og hygla sérhagsmunum ef þeim býður svo við að horfa.

Sérhagsmunasamtök, hópar eða jafnvel einstaklingar geta að sjálfsögðu í krafti yfirburðastöðu fjármagnseignar beitt sér fyrir því að koma stjórnmálamönnum — nú, eða heilum flokkum — fyrir vagn sinn. Þessi hætta er enn fyrir hendi og kannski er hún meiri en oft áður í sögu lýðveldisins, núna þegar við höfum á skömmum tíma séð rísa upp gríðarlega stór og sterk fjármálaveldi. Mér finnst alveg óþarfi að klóra yfir þessa staðreynd og við eigum að ræða þetta opinskátt. Við vitum náttúrlega hvað er í húfi. Það er sjálft lýðræðið. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar litlir flokkar sem hafa kannski málstaðinn einan að vopni þurfa að berjast við stóru flokkana sem eru með lokað bókhald en við sjáum greinilega að þeir hafa tugi milljóna til að spila úr. Við hljótum að spyrja: Hvar í ósköpunum hafa þeir fengið alla þessa peninga?

Við sáum alveg hvernig síðasta kosningabarátta fór fram þar sem Framsóknarflokkurinn, sem þó er ekki stór flokkur, bíaði allt landið út í flettiskiltum, var með auglýsingatíma í sjónvarpi og klæddi jafnvel heilu húsin með auglýsingum. Eftir kosningar vann þessi flokkur einhver markaðsverðlaun þar sem kom fram í umsögn að flokkurinn hefði náð að bjarga sér fyrir horn, unnið varnarsigur og náð að lagfæra ímyndina. Í framhaldi af þessu öllu saman, þ.e. þar sem við sáum hversu ofboðslega miklir peningar fóru greinilega í kosningabaráttu — við í minnsta flokknum, Frjálslynda flokknum, vitum mætavel hvað það er dýrt að reka kosningabaráttu. Við vitum alveg um þá taxta sem settir eru upp af fjölmiðlum, hvað kostar að auglýsa, hvað heilsíðuauglýsing í stærsta dagblaði landsins kostar. Við höfum kynnt okkur þetta allt saman og við vitum að hér eru engir smápeningar á ferð. Við hljótum öll að gera þá sanngjörnu kröfu að þessir flokkar opni bókhald sitt.

Við í Frjálslynda flokknum höfum gert þetta um margra ára skeið og mér finnst ósanngjarnt að sitja undir ásökunum frá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni um að við séum með einhverjar reglur sem bjóði upp á skollaleik. Við erum með reglur um það að við gefum ekki upp hverjir gefa minna en 500 þús., einstakar gjafir til flokksins, það er alveg rétt. Við höfum aldrei skorast undan því þegar við erum spurð hverjir hafi gefið peninga til flokksins. Ef okkur hafa borist fyrirspurnir um það hvort hinir eða þessir hafi veitt peninga til flokksins höfum við upplýst um það fúslega. Þegar skýrslan um ólöglegt samráð olíufélaganna kom fram í vetur vorum við spurð hvort olíufélögin hefðu gefið peninga í sjóði flokksins. Við fórum í bókhaldið og lásum úr því að þau höfðu samtals gefið 400 þús. kr., 100 þúsund kr. í hvert sinn á 3–4 ára tímabili. Þetta var ekkert leyndarmál. Þetta köllum við að vera með opið bókhald. Við birtum þetta á heimasíðu okkar og svörum síðan spurningum ef þær koma um það hverjir hafa verið að veita fé til flokksins. Mér finnst það heiðarleg og sanngjörn krafa — hún ætti að koma miklu skýrar fram hjá kjósendum þessa lands — að flokkarnir upplýsi um þetta. Hvað hafa menn eiginlega að fela? Ef menn eru í stjórnmálum af heilindum, telja sig vera að vinna fyrir almannahagsmuni sem þeir að sjálfsögðu eru kjörnir til, hvers vegna í ósköpunum ættu þeir þá að vera að fela það hverjir fjármagna kosningabaráttu þeirra, hverjir gefa peninga til flokkanna, hverjir fjármagna jafnvel prófkjör einstakra frambjóðenda flokkanna? Þegar til lengri tíma er litið hlýtur þetta að gagnast flokkunum sjálfum.

Oft hefur verið sagt að trúverðugleiki sé dýrmætasta eign hvers stjórnmálaafls eða hvers stjórnmálamanns og ég hygg að fátt sé betur fallið til þess að auka trúverðugleika stjórnmálamanna og stjórnmálaafla en að sýna fram á það að þeir hafi ekkert að fela í þessum efnum. Þarna höfum við í Frjálslynda flokknum gengið fram fyrir skjöldu, höfum gert það í mörg ár og munum gera það áfram. Við munum að sjálfsögðu feta í fótspor þingmanna Framsóknarflokksins og gefa upp þegar sá tími kemur hagsmunatengsl okkar, þau persónulegu.