Fjarskipti

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 15:48:28 (8604)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:48]

Frsm. minni hluta samgn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rakti það í framsögu sinni að það verklag hafi verið stundað að lögregla hafi getað fengið þessar upplýsingar oft og tíðum hjá fjarskiptafyrirtækjunum en rökin fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram eru eigi að síður þau að fjarskiptafyrirtækin hafa oft og tíðum neitað og bent á það að á grundvelli laga um meðferð opinberra mála þurfi að fá dómsúrskurð um slíkar upplýsingar, talið með öðrum orðum að þessar upplýsingar eigi að lúta að því sem kallað er fjarskiptaleynd. Ástæðan fyrir því að verið er að setja pósitíft ákvæði um þetta í lög er einmitt sú að fjarskiptafyrirtækin hafa ekki talið víst að þau mættu veita þessar upplýsingar og vísað í stjórnarskrá, mannréttindasáttmála og lög um meðferð opinberra mála þar sem segir að heimilt sé, m.a. í þágu rannsóknar, að fá upplýsingar hjá síma- eða fjarskiptafyrirtækjum um símtöl eða fjarskipti við tiltekinn síma eða fjarskiptatæki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið í hv. samgöngunefnd er ekki um neitt annað að ræða hér en að þegar veittar eru upplýsingar um IP-tölur manna er verið að veita lögreglunni aðgang að umferð viðkomandi einstaklings um netið. Þetta eru persónuupplýsingar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann það virkilega forsvaranlegt að leggja slíka ábyrgð á hendur starfsmanna fjarskiptafyrirtækja, að meta það eftir eitt símtal frá lögreglu hvort veita eigi upplýsingar um leyninúmer eða IP-tölu manna? Telur hv. þingmaður það virkilega forsvaranlegt í stað þess að dómari, sem hefur til þess forsendur og getur krafist gagna, getur krafist rökstuðnings, meti þetta eins og ég tel að eigi að vera meginreglan? Mér finnst þetta óhófleg ábyrgð sem verið er að leggja á starfsmenn fjarskiptafyrirtækja, algjörlega óeðlileg ábyrgð, og ég tel þá ekki hafa forsendur til að meta þetta. Auk þess skulum við muna að við rannsókn máls er sá einstaklingur sem verið er að rannsaka saklaus. Það er ekkert í þessari löggjöf sem segir að lögreglan gæti ekki, ef til þess kæmi, (Forseti hringir.) misnotað þetta gagnvart saklausum mönnum. Það er ekki búið að dæma mennina þannig að við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr, virðulegi forseti.