Uppboðsmarkaðir sjávarafla

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 17:49:57 (8620)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[17:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla er nú til 2. umr. og hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson gert grein fyrir nefndaráliti minni hluta sjávarútvegsnefndar sem ég styð.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla skipta æ meira máli fyrir fiskvinnsluna hér á landi og er orðið mjög brýnt að setja rammalöggjöf utan um uppboðsmarkaðina. Það voru því mikil vonbrigði í sjávarútvegsnefnd að ekki skyldi takast að vinna þetta frumvarp til hlítar eins og hagsmunaaðilar höfðu bent á að gera þyrfti. Ég vil árétta nokkur atriði sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Jóhann Ársælsson, gat um, þ.e. að kvaðirnar á eignarhaldi eru ekki skýrar fyrir uppboðsmarkaðina. Það er forsenda fyrir trúnaði og trausti í þeim viðskiptum sem þar geta farið í gegn. Ég tel þetta vera einn stærsta gallann við frumvarpið eins og lagt er til að það sé afgreitt.

Í öðru lagi þyrfti að setja skarpari reglur og ákvæði um gagnsæi í viðskiptum þannig að það væri fullkomlega ljóst ef um eignatengsl væri að ræða, annars vegar milli fiskveiða, útgerðar og fiskmarkaða. Ef sömu aðilar ættu í þessu og í eigin vinnslu þá væri það a.m.k. alveg ljóst þannig að þetta væri fullkomlega gagnsætt. Þarna vantar á og við bentum á það í hv. sjávarútvegsnefnd að þetta ætti að laga og betra væri og skynsamlegra að fresta málinu til haustsins og vinna það þannig að tekið væri á þeim atriðum sem stæðu út af.

Auk þess vil ég minna á að ég hef flutt tillögu til þingsályktunar um leiðir til að auka vinnslu á fiski hérlendis þar sem ég vek athygli á miklum útflutningi á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis. Ég vil að leitað sé allra leiða til að draga úr honum og auka í staðinn fiskvinnsluna innan lands. Ein leið í því er einmitt að styrkja stöðu innlendra fiskmarkaða, þannig að fiskur sem á að fara á markað geti farið á fiskmarkaði innan lands. Ef erlendir kaupendur vilja kaupa fiskinn óunninn þá kaupi þeir hann á innlendum fiskmörkuðum. Ég hefði talið að í frumvarpi þessu, um uppboðsmarkaði sjávarafla, ætti að koma inn ákvæði eða a.m.k. umræða sem lyti að því hvernig draga mætti úr útflutningi á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis en styrkja stöðu íslenskrar fiskvinnslu og íslenskra fiskmarkaða í þeirri samkeppni.

Herra forseti. Ég tel að vinna þyrfti betur það frumvarp sem hér er til 2. umr. og skynsamlegt væri að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Það kæmi síðan betrumbætt til umræðu og afgreiðslu aftur í haust, þannig að það nái þeim markmiðum sem að er stefnt með því.