Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 18:55:41 (8633)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:55]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur notað fremur stór orð í þessari umræðu í allan vetur. Ég hef tekið eftir því. (GAK: Ég hef sjaldan skammað þig mikið.) Ég undrast það, því mér finnst hv. þingmaður vera prúðmenni.

Ég vil endurtaka, og það vita hv. þingmenn, að þetta var gríðarlega umfangsmikil breyting. Ég hef ekki sagt að þetta sé bara tilraun. Breytingin stendur en hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir því að þetta ár það er nokkurs konar tilraunaár, vegna þess hve umfangsmikil breytingin er. Við erum að taka upp samkeppni.

Hv. þingmaður er þingmaður Norðvesturkjördæmis. Stækkun í Hvalfirði, stækkun Norðuráls, byggir á jarðvarmavirkjunum en það hefði ekki gerst nema vegna þess að við höfum tekið upp þetta nýja fyrirkomulag. Tekin hefur verið upp samkeppni í framleiðslu á raforku. Það var ekki fyrir, Landsvirkjun hafði einokun á þessu sviði. Það er grundvallaratriði sem hv. þingmaður þekkir örugglega, hefur velt fyrir sér og veit að skiptir máli.

Hvað dreifinguna varðar þá er mjög mikilvægt að dreififyrirtækin séu stór og öflug og stundi dreifingu á stórum svæðum. Þess vegna eru uppi áform um að sameina fyrirtæki til að ná fram hagkvæmni, sem mun þýða lægra raforkuverð.

Við skulum hafa í huga að raforkuverð á Íslandi er mjög lágt þegar við berum okkur saman við önnur lönd. Það er mjög lágt. Þar með er ekki sagt að það megi ekki vera lægra. Þegar samkeppnin kemst á gefst einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri að versla við þann aðila sem þeir vilja versla við. Þannig virkar samkeppnin í raun.