Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 20:21:44 (8643)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki að mér að gera hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur upp skoðanir og ég biðst velvirðingar á því ef henni finnst að ég hafi gert það. Þegar við förum yfir megininntak breytingartillagnanna í skjalinu sem hún mælti fyrir og inntak nefndarálitsins birtist það manni þannig að allar tillögur taki mið af því að hún kjósi að ótvírætt sé tekið mið af áliti Skipulagsstofnunar. Ef við erum að færa pólitísku ákvörðunina með upplýstri ákvörðun til stjórnvalds er ekki hægt að taka afdráttarlaust mið af niðurstöðu og vilja embættismannanna, eða afstöðu eða áliti eða hvað það er hverju sinni, þannig að ég hafi bara skilið inntak tillagna hennar þannig. Ef það er ekki er það bara þannig og ég er ánægð að heyra það en ég vek þá athygli á að þannig má skilja tillögurnar og nefndarálitið. Annars dreg ég þessi orð mín til baka.