Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 20:37:17 (8651)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:37]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir það miður að hv. þingmaður skuli ekki hafa getað staðfest þann skilning sem kemur fram í nefndaráliti mínu. Mér þykir afar mikilvægt að Skipulagsstofnun fjalli um þær umsagnir og athugasemdir sem koma inn en sé ekki bara sá aðili sem afhendir þær framkvæmdaraðilanum til þess að framkvæmdaraðilinn geti fjallað um þær því í umsögn Skipulagsstofnunar kemur skýrt fram, og við vitum það sem höfum lesið ótal álit Skipulagsstofnunar hingað til, að margar af þeim athugasemdum sem koma eru ekki ætlaðar framkvæmdaraðila. Þær eru t.d. ætlaðar stjórnvöldum og Skipulagsstofnun sem slík gefur þá einhverjar umsagnir um þær athugasemdir sem svo er ástatt um í sínu áliti, í sinni niðurstöðu.

Hún tekur líka til skoðunar aðrar umsagnir og kemur þá jafnvel með, og þarf að gera það eðli málsins samkvæmt, ákveðnar ábendingar til framkvæmdaraðilans vegna viðkomandi umsagna þannig að hún verður að fjalla um umsagnirnar. Þær geta orsakað það að Skipulagsstofnun kemur með hugmynd að mótvægisaðgerð t.d. eins og henni er ætlað samkvæmt álitinu þannig að það hlýtur að vera — skynsemin segir manni það — Skipulagsstofnun les allar umsagnirnar og hún fjallar um þær efnislega í sínu áliti til að hún geti gefið framkvæmdaraðilanum einhvers konar vegvísi um það hvort tilefni sé til mótvægisaðgerða vegna þessarar eða hinnar umsagnarinnar eða ekki. Skilningur minn hefur því verið sá að þó hér sé verið að breyta orðalaginu þá sé ekki verið að gera neina breytingu á því vinnulagi sem hefur verið viðhaft og er viðhaft í dag hjá Skipulagsstofnun.