Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 20:44:37 (8656)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[20:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sá á þessu máli mikla annmarka við 1. umr. þess og fyrst og fremst þá að ekki væri einfalt að veita ríkisframlag til framkvæmdar þegar hún væri orðin í einkaframkvæmd og hefði þá í raun þá ekkert lengur að gera með framkvæmd sveitarfélags að öðru leyti en því að sveitarfélagið yrði leigjandi að framkvæmdinni. Það komu ekki almennileg svör við því hvernig menn sæju þetta fyrir sér.

Nú er búið að skoða þetta mál í nefndinni. Ég held að við hefðum þurft betri tíma. Það er í raun verið að ákveða að sveitarstjórn fái styrk til fráveituframkvæmda óháð því hvort sveitarfélögin fjármagna framkvæmdirnar beint eða fari í einkaframkvæmd. Niðurstaða nefndarinnar var sú að það væri alltaf sveitarfélagið sem fengi peninginn og sveitarfélagið þyrfti í raun að vera með skuldbindingar sínar vegna rekstrarleigunnar inni í ársreikningum. En við höfum ekki farið gegnum það hvernig hægt sé að gera þetta.

Ef ég reyni að yfirfæra þetta mál á venjulegt heimili þá vitum við að ríkið styður þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og ætla að eiga það og stuðningurinn er í formi vaxtabóta. Ríkið styður líka þann sem er að leigja húsnæði en þá er ekki ríkið tilbúið að láta viðkomandi hafa vaxtabætur. Hann fær húsaleigubætur. Það er allt annað viðmið í að styðja við að leigja eitthvað eða styðja við að kaupa eitthvað. Þess vegna getum við varla verið með stofnkostnaðarstuðning við sveitarfélag sem ætlar ekkert að vera með fé að láni eða fjárfesta í stofnkostnaði. Þetta fannst mér vera vandi okkar sem fengum þetta mál til umfjöllunar. Mér finnst ekki að við höfum almennilega skýrt hvernig sveitarfélagið tekur við styrknum og setur hann inn í framkvæmdina. Því er ekki ætlað að gera það sem eignarhlut. Það er milligönguaðili. Það er einhvers konar ábyrgðaraðili og það á að setja skuldbindinguna inn í ársreikningana og ég er sannfærð um að þetta verður vandasamt.

Hins vegar vil ég ekki stoppa þetta mál eða leggja stein í götu þess vegna þess að ég er mjög meðvituð um að það er mjög mikilvægt að fara í framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum. Ég geri mér líka grein fyrir að það er flóknara þegar sveitarfélagið er inni í landi og getur ekki verið með beinar útrásir. Þess vegna hef ég valið að vera með fyrirvara og ég mun sitja hjá við málið með þessum ábendingum mínum.