Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 12:29:53 (53)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:29]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg varðandi það verkefni sem við erum að vinna að, við að fara yfir vinnubrögð og verkferla eins og við tölum um. Ég veit að þetta er sameiginlegt áhugamál allra í nefndinni og við höfum margoft rætt það. Ég veit að þetta hefur líka vakið athygli út fyrir nefndina. Það er mikill áhugi fyrir þessu verkefni utan nefndarinnar, í stjórnkerfinu og víðar. Ég lít því svo á að þetta sé mjög mikilvægt verkefni og mjög mikilvægt að okkur takist vel til. Ég legg áherslu á það sem ég sagði í ræðu minni áðan að allar aðgerðir og breytingar og annað sem við förum út í verða að vera vel ígrundaðar. Við megum ekki stökkva út í eitthvað sem er ekki fyllilega útfært. Allt tekur sinn tíma. Þetta er verkefni sem mun taka ákveðinn tíma að þróast og þroskast. En ég vil lýsa ánægju með það hvernig samnefndarmenn mínir úr öllum flokkum hafa tekið í þetta og jafnframt er ánægjulegt að finna fyrir þeim áhuga sem fram hefur komið utan nefndarinnar. Það er mikilvægt. Ég veit að okkur mun takast í sameiningu að vinna rétt úr þessu máli.