Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 14:10:28 (64)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:10]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þær hafa verið nokkuð athyglisverðar, umræðurnar hér í dag um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005. Fjármálaráðherra hefur gert vel og skilmerkilega grein fyrir þeim framtíðaráformum sem stjórnarmeirihlutinn hér á þingi hefur í þeim efnum hvað það varðar.

Hér hefur komið fram að það er bjart fram undan í íslensku atvinnulífi, í íslensku þjóðfélagi. Skuldir ríkissjóðs lækka ár frá ári og það er bjart fram undan. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur stjórnmálamenn — það hefur borið dálítið á því í umræðum hér í dag að menn hafa viljað líta til fortíðarinnar — að við lítum líka fram á veginn. Í raun og veru má segja að núverandi ríkisstjórn hafi unnið mjög markvisst að því að búa í haginn fyrir framtíðina. Þar má nefna mjög mörg dæmi. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað umtalsvert á síðustu árum. Ef við horfum á árabilið 1995–2005, en ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tók við árið 1995, voru hreinar skuldir ríkisins sem hluti af landsframleiðslu 34,3% árið 1995. Samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 verða þessar hreinu skuldir ríkissjóðs 17,2% á næsta ári. Hér er um helmingslækkun að ræða og það tel ég vera mikinn árangur.

Jafnframt þessu hefur íslenska ríkisstjórnin hafið stórátak í því að styrkja lífeyrissjóðakerfi landsmanna. Á árabilinu 1999–2005 hefur um 80 milljörðum kr. verið varið til þess að byggja upp Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það eru tölur sem koma ekkert fram við afgang fjárlaga eða annað slíkt. Þetta eru þær tölur sem íslenska ríkið hefur lagt sérstaklega inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem kannski ella hefði verið hægt að nota til að sýna enn glæsilegri tölur við afgang á fjárlögum. (Landbrh.: Ætlar Ögmundur ekki að ...?)

Eins og ég hef sagt hér held ég að það sé mjög mikilvægt að við horfum til framtíðar hvað þetta varðar. Eitt stærsta vandamál þeirra ríkja sem við erum að bera okkur saman við dagsdaglega er akkúrat lífeyrissjóðakerfið, t.d. hjá Evrópuþjóðum, og það er að sliga fjárhag viðkomandi ríkja. Við horfum hins vegar á það hér að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er mjög sterkur lífeyrissjóður og ef ekki hefðu komið til þessir 80 milljarðar sem við höfum þó lagt inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins hefði trúlega þurft að skerða lífeyrisréttindi þeirra sem þaðan taka lífeyri sinn. Ég held að hér sé því um mjög mikilvægt mál að ræða, auk þess sem við höfum búið í haginn fyrir framtíðina með viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu. Mín kynslóð í dag og kynslóðin á undan mér leggja nú meira í viðbótarlífeyrissparnað sinn. Nýlega var því lýst yfir í fjölmiðlum eins og allir vita að trúlega verður sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi, sú kynslóð sem nú er að útskrifast úr háskólum landsins, vellauðug þegar hún hefur náð 60 ára aldrinum vegna þess að þessi viðbótarlífeyrissparnaður er orðinn það há upphæð að það verður erfitt að koma henni í lóg. Þetta er nú framtíðarsýnin. Þetta er mikil bylting og það er gott til þess að hugsa að það verður gott að vera gamall í þessu landi. Ég held að við eigum að halda áfram á þessari braut.

Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á það fyrir síðustu kosningar að endurskipuleggja húsnæðislánamarkað landsmanna. Mikið grín var gert að því af hálfu margra stjórnarandstæðinga að það væri enn ein kosningabrella Framsóknarflokksins að fara af stað með endurskipulagningu á húsnæðislánakerfinu og hækka lánshlutfall af hæfilegu íbúðarhúsnæði í allt að 90%. Þetta er hins vegar allt að ganga eftir. Þegar stjórnarflokkarnir endurnýjuðu hjúskaparheit sín eftir kosningar fór hæstv. félagsmálaráðherra Árni Magnússon af stað með mikla vinnu í því að endurskipuleggja húsnæðislánakerfi landsmanna.

Við höfum séð árangur þeirrar breytingar að í dag er hafin mjög mikil samkeppni á húsnæðislánamarkaðnum. Það höfum við ekki séð áður í sögu bankastarfsemi hér á landi. Það hefur aldrei verið nein raunveruleg samkeppni um húsnæðislán landsmanna. Við horfum á hana í dag. Vextir Íbúðalánasjóðs eru nú 4,3% og vextir á almenna bankamarkaðnum eru 4,2% og fyrir rétt um ári voru vextirnir 5,1%. Ef við horfum á heildarskuldir íslenskra heimila, þó það sé ekki nema bara í fasteignum þeirra, eru það trúlega 700–800 milljarðar og við getum sagt okkur hvað 1% skiptir þar gríðarlega miklu máli. Að 1% lækkun á vöxtum húsnæðislána mun skila íslenskum heimilum 7–8 milljörðum árlega í minni greiðslubyrði af lánum sínum. Það eru ekki litlir peningar þegar við horfum t.d. til vaxtabótanna sem eru í dag um 4,9 milljarðar. Sú breyting sem ég var að tala um mun trúlega skila íslenskum heimilum 7–8 milljörðum. Það er nálægt því að jafna framlag ríkisins til barnabóta og vaxtabóta samanlagt. Þetta málefni skiptir því framtíðina miklu máli, skiptir þá kynslóð sem er að eignast húsnæði í fyrsta skipti gríðarlega miklu máli. Hér erum við að tala um mikla fjármuni sem renna til íslenskra fjölskyldna.

Annað nýmæli sem hæstv. fjármálaráðherra hefur beitt sér fyrir er langtímaáætlun í ríkisfjármálum þar sem við höfum nú fyrir framan okkur áætlun til fjögurra ára um framtíðarsýn okkar í íslenskum ríkisfjármálum. Þar er kveðið á um 4% lækkun tekjuskatts og það er alveg í samræmi við það, a.m.k. sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar.

Þar er líka kveðið á um að við munum hækka barnabætur um allt að 3 milljarða kr. Barnabæturnar eru þannig uppbyggðar að þær eru tekjutengdar. Þó margir stjórnarandstæðingar séu á móti tekjutengingum yfir höfuð munu þær þó leiða til þess að hlutfallslega meira af þessum 3 milljörðum munu fara til þeirra sem minna mega sín í íslensku þjóðfélagi, lágtekjufólksins. Núverandi ríkisstjórn mun því bæta sérstaklega kjör lágtekju- og millitekjufólks sem á börn og er að koma sér upp húsnæði yfir höfuðið. Ég held að það sé nokkuð ljóst.

Ég hef ekki langan tíma, hæstv. forseti, en mig langar að endingu að minnast á eitt mál sem ég tel að núverandi ríkisstjórn muni sérstaklega verða minnst fyrir þegar fram líða tímar. Það er sérstakt átak í málefnum fatlaðra, í búsetuúrræðum fyrir fatlaða. Ég man að þegar ég hóf störf í félagsmálaráðuneytinu í ársbyrjun árið 2000 var vægast sagt allt í háalofti í þeim málaflokki. Tugir fatlaðra einstaklinga áttu þess ekki kost að eiga rétt á búsetuúrræðum við sitt hæfi og þáverandi félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, beitti sér fyrir því árið 2001 að farið yrði í sérstakt búsetuátak fyrir fatlaða einstaklinga. Þess sér stað í fjárlögum fyrir árið 2005 þar sem stjórnvöld gera ráð fyrir að á tímabilinu 2001–2005 hafi húsnæðisúrræði fyrir fatlaða aukist um 110 búseturými sem er gríðarlegur árangur. Þetta hefur verið gert í farsælu samstarfi við Þroskahjálp og hússjóð Öryrkjabandalags Íslands. Ég tel að núverandi ríkisstjórnar verði minnst hvað þetta varðar að það hefur verulega áunnist í réttindabaráttu fatlaðra hér á landi hvað þetta varðar.

Okkur stjórnarliðum er legið á hálsi, hæstv. forseti, að við séum ekki velferðarsinnar og viljum ekki hag velferðarkerfisins sem mestan. En það er staðreynd að aldrei í sögu íslenska lýðveldisins hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til velferðarmála eins og í tíð núverandi ríkisstjórnar. Á árinu 2005 horfum við á það að frá árinu 1998 hafa fjárframlög til almannatrygginga tvöfaldast úr 19 milljörðum árið 1998 í 38 milljarða. Ég á eftir að sjá það að önnur ríkisstjórn hefði staðið sig betur hvað þetta varðar. Greiðslur til öryrkja hafa hækkað á sama tímabili úr 4,9 milljörðum í 14,3 og þetta er mikill árangur.

Ég vil segja í lok máls míns að auðvitað er margt ógert og það má alltaf gera betur. En ég held að sú framtíðarsýn sem núverandi ríkisstjórn hefur markað í velferðarmálum og í málefnum íslensks almennings sem sér stað í langtímaáætlunum um ríkisfjármál, ég held að þegar þjóðin og almenningur sjá okkar góða vilja í þá átt að bæta kjör allra þjóðfélagsþegna hér í landi þurfi ríkisstjórnarflokkarnir og ríkisstjórn landsins ekki að kvíða framtíðinni og ekki íslenskur almenningur.