Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 14:23:07 (66)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:23]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson er ekki lengi að gleyma. Ég man ekki betur en að á mínu fyrsta þingi hafi verið afgreitt fjárlagafrumvarp þar sem var afstaða var tekin til þess hátekjuskatts sem hv. þm. nefndi áðan. Ég man ekki betur en þingflokkur Samfylkingarinnar hafi greitt því atkvæði að sá hátekjuskattur skyldi falla niður. Ég man eftir því að hv. þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn því, en ég man ekki eftir því að Samfylkingin hafi mótmælt þessu sérstaklega. En fljótt skipast veður í lofti. Innan árs frá því að við greiðum atkvæði um þetta er Samfylkingin búin að taka heilan hring. Ég verð að segja að einstaklingur sem er með um 400 þús. kr. á mánuði, sem getur verið iðnaðarmaður í Reykjavík eða annað slíkt, duglegur maður sem vinnur 10–12 tíma á dag, það er nöturlegt að slíkur einstaklingur skuli lenda í hátekjuskatti og við megum ekki búa til þannig þjóðfélag að það verði vinnuletjandi að búa í þessu landi.

Við Íslendingar erum duglegt fólk að eðlisfari en hátekjuskatturinn var farinn að fara þannig með mörg heimili að fólk sá sitt óvænna og fór að vinna á svörtum vinnumarkaði. Þannig er íslenskur veruleiki. Af því að hv. þm. talaði um að við ættum að tala um hlutina eins og þeir eru þá er íslenskt samfélag þannig. Ég tel að hátekjuskatturinn eins og hann var framkvæmdur hafi verið með allt of lág mörk. Auðvitað getum við deilt um það hvort maður með svimandi háar tekjur, með yfir milljón á mánuði eða eitthvað slíkt, eigi að borga meira til samfélagsins en aðrir. Mér finnst það umræða sem við getum alveg tekið. En eins og hátekjuskatturinn var framkvæmdur á sínum tíma, og er enn við lýði að hluta, þá var hann óréttlátur. Ég man ekki betur en Samfylkingin hafi verið ríkisstjórninni fylgjandi í því að afnema þennan skatt. En eins og ég segi, fljótt skipast veður í lofti.