Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 14:28:39 (69)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:28]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði viljað heyra hv. þm. Framsóknarflokksins, Birki J. Jónsson, lýsa stefnu Framsóknarflokksins í menntamálum og þeim viðhorfum sem þar koma fram að hækka innritunargjöld í Háskóla Íslands um 40% sem eru bein skólagjöld. Eftir því sem ég best man frá þinginu árið 2002 þegar þessi mál voru til umræðu, þá lagðist þáverandi þingflokkur framsóknarmanna gegn eða var mjög tregur í þessar miklu hækkanir á skólagjöldum. En nú þegar hin yngri kynslóð kemur inn, kynslóð sem er nýbúin að fara í gegnum háskóla, er stórhækkun á skólagjöldum í Háskóla Íslands eitt það fyrsta sem lagt er til. Er það þetta sem framsóknarmenn ætla sér að styðja og bakka upp? Er þetta þá kannski líka hluti af þeirri stefnu að reka háskóla með þeim hætti að hann hefur nú lýst yfir að hann treysti sér ekki til að taka neina nýnema inn eftir áramót vegna skertrar fjárhagsstöðu? Er það líka hluti af stefnu Framsóknarflokksins í menntamálum, sem hér er birtist? Og einnig að allur sá hópur, bæði yngri og eldri, sem vill komast í framhaldsskóla og fá að ljúka framhaldsskólanámi sínu, að framhaldsskólarnir geta ekki tekið þennan hóp inn vegna fjárskorts? Er það líka hluti af hinni nýju stefnu Framsóknarflokksins?