Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 14:55:41 (79)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:55]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var athyglisvert að hæstv. fjmrh. hóf mál sitt eða svo gott sem á fyrir fram varnarræðu fyrir skattalækkunum ríkisstjórnarinnar. Af einhverjum ástæðum átti hæstv. ráðherra von á því að þær mundu sæta gagnrýni en kemur inn á það í ræðu sinni að ýmsir hafi efasemdir um efnahagslega skynsemi þess að vaða akkúrat í skattalækkanir núna þó ekki sé rætt um málið að öðru leyti (Gripið fram í: ... þingmanninum það í gær?) og talar um það hér að sumir hafi gagnrýnt þessi áform, þ.e. skattalækkunaráformin og sagt þau ótímabær og að skattalækkanir geti orðið til að kynda óeðlilega mikið undir innlenda eftirspurn á næstu árum. Ég er ósammála þessu segir hæstv. fjmrh. Er hæstv. fjmrh. almennt ósammála þeirri hagfræðikenningu að það sé óæskilegt að hleypa auknu fé í umferð við þær aðstæður þegar áhyggjur manna eru helstar af þenslu og verðbólgu. Svo segir hæstv. ráðherra og á nú skilið hrós fyrir húmorinn í þessari setningu á bls. 3: Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja umtalsverðum fjárhæðum til að lækka skatta er tekin að vel athuguðu máli eftir að hafa skoðað alla þætti efnahagsmála vandlega, ekki síst hvernig megi auka aðhald í útgjöldum ríkissjóðs. Gerðist þetta svona? Var þessi ákvörðun tekin eftir mikla yfirlegu og rækilegar hagfræðilegar rannsóknir? Nei. Þetta eru kosningaloforð. Þetta eru hrá kosningaloforð óábyrg sem er slengt fram í taugaveiklun stjórnarflokkanna í mars- og aprílmánuði 2003. Framsókn reið á vaðið og lofaði 17 milljarða skattalækkunum. Var þá heldur bágt ástandið hjá Framsókn gömlu í skoðanakönnunum, og kosningaauglýsingarnar ekki farnar að virka sem skyldi. Og Sjálfstæðisflokkurinn kom og doblaði og bauð 30 milljarða og síðan hafa menn verið að bögglast með þetta og hagfræðirannsóknirnar voru ekki miklar sem fóru fram á þessum dögum þarna í mars og apríl 2003. En að koma svo núna og segja að þetta sé yfirveguð ákvörðun tekin eftir rannsóknir á öllum þáttum efnahagsmála og þetta sé alveg skothelt er auðvitað brandari fyrir þá sem þekkja söguna. Þetta er ekki svona.

Það gefur alveg auga leið að það er efnahagslega óskynsamlegt við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir núna í hagkerfinu að lækka skatta og setja marga milljarða þannig í umferð jafnvel þó að menn sýni fulla hörku í því að skera niður ríkisútgjöldin á móti. Þá kemur það einhvers staðar inn og veldur sársauka.

Það er reyndar líka svo, frú forseti, að það fer eiginlega hrollur um mig þegar menn búa sér til glansmynd, svona ýkta glassúrmynd af þessu tagi sem Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega og að nokkru leyti Framsóknarflokkurinn er að reyna að draga upp af efnahagsástandinu af því að það er ekki þannig að það sé ekki neitt til að hafa áhyggjur af, að þetta sé bara teppalögð og bein braut inn í framtíðina og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af einu eða neinu. Það er bara ekki þannig, því miður. Betur að satt væri. Auðvitað hefur okkur gengið ýmislegt vel og það er margt jákvætt sem hefur gerst og er að gerast í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Það er hárrétt. T.d. gleðilegur og í raun og veru ótrúlegur vöxtur ferðaþjónustunnar ár frá ári sem er mesta vaxtargrein íslensks atvinnulífs, er að vaxa núna með 15% að meðaltali milli ára og er að skila stórauknum gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið á hverju ári. Ákvörðun Flugleiða um að hefja flug til vesturstrandar Bandaríkjanna er ígildi u.þ.b. eins þriðja álvers ef ekki hálfs álvers í störfum og í tekjum inn í þjóðarbúið og brotabrot af fjárfestingunni á bak við og ekki þarf að eyðileggja náttúru Íslands til þess. En það er þannig að þetta mun skapa 80–100 bein störf, auka veltu Flugleiða um líklega hátt í þrjá milljarða og hafa mikið afleidd og óbein áhrif í ferðaþjónustunni og víðar í hagkerfinu. Þetta er auðvitað virkilega gleðilegt.

En dökki stóri langi skugginn sem ber yfir þetta allt saman er auðvitað sá að bati ríkissjóðs og hagvöxturinn er að miklu leyti drifinn áfram af eyðslu umfram efni. Það er þannig. Viðskiptahallinn á þessu ári og tveimur hinum næstu er áætlaður 300 milljarðar kr. eins og ég fór yfir í ræðu í gærkvöldi. Og í þessu hefti frá fjármálaráðuneytinu sem að mínu mati er að vísu á allan hátt lakara en sú þjóðhagsspá sem við fengum frá Þjóðhagsstofnun sálugu áður en hún fór að verða óþæg við ríkisstjórnina og var slegin af eins og kunnugt er, í reiðikasti yfir því að forstjórinn hafði ekki makkað rétt og verið á línunni, þá er þó verið að reyna að draga upp einhverja mynd inn í framtíðina.

Ég vek athygli manna t.d. á töflu á bls. 6 í þessu hefti, ég hvet menn til að skoða hana. Ég bið um álit hæstv. fjármálaráðherra á því hvort þetta sé ekki til þess að hafa áhyggjur af. Þar er sagt að viðskiptahallinn á árunum 2004–2006 verði að meðaltali 10,5% af vergri landsframleiðslu. Og það sem verra er, á árinu 2007–2010, á næstu fjórum árum þar á eftir er áætlað að hann verði að meðaltali 5,25% af landsframleiðslu.

Þetta þýðir sem sagt næstu þrjú árin að meðaltali 100, í ár og næstu tvö ár, að meðaltali 100 milljarða viðskiptahalli á ári. Næstu fjögur ár þar á eftir að meðaltali um 50 milljarða viðskiptahalli, ef við erum að leika okkur í kringum landsframleiðslu sem er u.þ.b. að verða 1.000 milljarðar kr.

Sem sagt 500 milljarðar í viðskiptahalla fram til 2010 frá og með árinu í ár. Þarf engar áhyggjur að hafa af þessu, er þetta allt í lagi? Ég hélt ekki.

Hver verður greiðslubyrðin orðin af þessum 500 milljörðum ef þeir söfnuðust nú allir saman inn á reikning og þó að við værum með þá á tíu ára lánum? Það tæki nú í. Afborganirnar að nafnvirði einar yrðu þá 50 milljarðar á ári og eigum við að segja 5% raunvextir, 3%? Það er fljótlegt að reikna þetta út.

Það er nefnilega ekki nóg, því miður, þó að það sé gott í sjálfu sér að ríkissjóður sé rekinn með afgangi eða hafi bætt stöðu sína. Skárra væri það nú ef þjóðarbúið að öðru leyti, heimilin, atvinnulífið og sveitarfélögin eru öll að safna skuldum. Má ég þá biðja um útskýringar á því sem stendur í þessu hefti líka — kannski þarf að lesa það aðeins betur og vita hvað er mark á því takandi — það stendur hér á einum stað að sveitarfélögin hafi verið rekin með afgangi í fyrra. Ég man ekki betur en að það hafi einmitt verið að koma tölur frá Sambandi sveitarfélaga um halla upp á tæpa 3 milljarða, samtals 8 milljarða á tveimur árum, þ.e. 2002 og 2003. Hér á bls. 25 er engu að síður sagt:

„Árið 2003 var afgangur á rekstri sveitarfélaga í fyrsta skipti frá árinu 1990.“

Það er að vísu rétt að þau hafa verið rekin með halla nánast árlega í hátt á annan áratug. En hver var þessi afgangur árið 2003? Það er einhver alveg sérstök reikniformúla fjármálaráðuneytisins, því samkvæmt þeim uppgjörsreglum sem sveitarfélögin nota nú sjálf og tóku upp 2001 þar sem eignir og fyrningar eigna eru komnar inn í reikningana eins og eðlilegt er og venjulegar uppgjörsreglur eru notaðar þá veit ég ekki betur en að það hafi verið upp undir 3 milljarða halli á sveitarfélögunum. Þau hafa safnað skuldum með einni einustu undantekningu að þær stóðu í stað milli áranna 1995 og 1996, held ég að ég muni rétt, allt þetta tímabil. Þetta þarf líka að taka með í reikninginn. Gaman væri að heyra hvernig hæstv. fjármálaráðherra útskýrir þessa setningu í heftinu sem hann hlýtur að bera hér höfundarréttarlega ábyrgð á.

Svo ætlaði ég aðeins að nefna, frú forseti, að vegamálin fá sína venjulegu útreið í þessu frumvarpi. Ég hef verið að velta því fyrir mér: Hefur enginn maður áhyggjur af því að það er ævinlega gripið til vegamálanna, samgönguframkvæmdanna? Hvers eiga samgönguframkvæmdir eða vegaframkvæmdir að gjalda? Menn telja sig geta leikið sér með þær fram og til baka, bætt við þær eða skorið þær niður bara svona eins og mönnum hentar í einhverjum hagstjórnaræfingum og þó aðallega auðvitað til að þykjast vera að gera eitthvað í þeim efnum því að auðvitað eru þetta ekki stærðir sem skipta neinum sköpum.

Með þessu er öll áætlanagerð á þessu sviði gerð að brandara, vegáætlunin, nýja, fína, samþætta samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra er bara eins og hver annar brandari því það er ekki orð að marka hana, því að svo koma menn í fjárlögum og þar er ýmist verið að fresta, skera niður, auka við, draga aftur saman og það líður stundum ekki árið á milli þess sem menn annars vegar auka vegafé og hins vegar skera það niður. Í desember 2002 tilkynntu menn um verulega aukningu samgönguframkvæmda, sem var gott, í því skyni að spýta aðeins í atvinnulífið o.s.frv. en það náði ekki ári, þá var búið að skera það niður aftur. Í september 2003 var boðaður niðurskurður á aukningunni frá því í desember árið áður.

Þetta er auðvitað algjörlega ómögulegt og mér finnst vegamálin eiga betra skilið en að vera meðhöndluð með þessum hætti. Þegar maður lítur til þess hvernig umferðin er að þróast, hvernig flutningakerfið í landinu er að þróast, að það á að leggja niður strandsiglingar frá og með 1. desember nk., þá er þetta auðvitað allt saman út úr kú. Það er þvert á móti miklu frekar þörf fyrir það að reyna að finna leiðir til þess að hraða þar ýmsum brýnum framkvæmdum, þó ekki væri nema til þess að vegirnir bæru þessa flutninga, ef menn ætla að sitja uppi með þá alla saman á landi, og til þess að bæta úr hættulegustu stöðunum á þjóðvegakerfinu, einbreiðum brúm og öðru slíku.