Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 15:38:17 (90)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:38]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur verið svo elskulegur að reikna út fyrir okkur hvað láglaunafólkið fær í skattalækkanir, 1% fyrir mann með 150 þús. kr. á mánuði eru 18 þús. kr. á ári, þ.e. 1.500 kr. á mánuði eða eins og tveir bíómiðar.

Ég ætla þess vegna að biðja hv. þm. Bjarna Benediktsson um að upplýsa okkur líka um hvað menn með sambærilegar tekjur og hv. þm. Bjarni Benediktsson fá í aðra hönd í skattalækkunum í 1% skattalækkuninni og í 2% lækkuninni á hátekjuskatti, eða hvað 3% af sambærilegum tekjum og hv. þm. hefur nemur hárri fjárhæð á mánuði og á ári svo að við höfum það hér til samanburðar í umræðunni ef hv. þm. vildi gjöra svo vel.