Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 18:29:01 (135)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:29]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég óttaðist einmitt að ef hæstv. félagsmálaráðherra færi í yfirlýsinguna mundi allur tíminn fara í það. Þess vegna baðst ég undan því að fá að fara yfir hana einu sinni enn því að það er búið að fara yfir hana áður í dag. En við skulum vona að hæstv. ráðherra komist yfir svörin í seinna andsvari.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi heyrt það jafn vel og ég frá reyndum sveitarstjórnarmönnum sem hafa staðið í þessum bransa, sumir hverjir jafnvel áratugum saman, að þeir hafa í seinni tíð sagt að það hafi aldrei verið jafnerfitt að ná endum saman, það hafi aldrei verið jafnerfitt að reka sveitarfélög og á síðustu árum.

Ég trúi ekki öðru en að það hafi verið markmiðið að tekjustofnanefndin, sem hefur starfað mjög lengi, væri búin að ljúka störfum núna. Það er ekkert í frumvarpinu um það hvernig á að nálgast sveitarfélögin. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvað tafði fyrst og fremst fyrir störfum nefndarinnar.

Hvers vegna þurfti allt í einu í miðju ferli að fá einhverja viljayfirlýsingu um það hvað menn ættu að gera? Lá það ekki fyrir strax í upphafi hvert markmiðið var? Af hverju þurfti allt í einu að kalla fjármálaráðherrann til og fá hans stafi á blað til þess að hópurinn gæti starfað? Það skyldi þó ekki vera að það hafi einhvers staðar verið tregða í kerfinu að viðurkenna einhverjar staðreyndir sem fyrir liggja. Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra fari yfir þær tölur sem ég bað hann um að segja álit sitt á.

Að lokum, herra forseti, er það algerlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi, þar sem ekki tókst að ljúka verkinu áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram, hvort það sé ekki alveg öruggt að vinnunni verði lokið áður en fjárlög verða afgreidd í þinginu.