Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 18:31:04 (136)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:31]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú bættust svo margar spurningar við hjá hv. þm. að það er ekki nokkur möguleiki að svara þeim öllum. Ég skal þó gera mitt besta.

Hv. þm. minntist á einkahlutafélögin og þá útreikninga sem Samband sveitarfélaga hefur sett fram í þeim efnum. Það verður eflaust eitt þeirra verkefna sem tekjustofnanefndin mun fjalla um. Það liggur ekki fyrir nein niðurstaða í því. Þarna er hins vegar um skattamál að ræða þannig að það er í sjálfu sér eðlilegra að fjármálaráðherra verði til svara hvað það varðar.

Um húsaleigubæturnar er það að segja að gengið hefur verið frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um uppgjör húsaleigubótanna. Ríkið hefur fyllilega, hæstv. forseti, staðið við sinn þátt þess samnings og stendur ekki annað til í framtíðinni.

Um fráveitumálin. Hv. þm. bendir réttilega á að það samkomulag sem gert var um greiðsluþátttöku ríkisins hvað þau mál varðar rennur út í lok næsta árs. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort framhald verði á þeirri vinnu. Það verður tíminn að leiða í ljós.

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr: Hvað dvelur orminn langa? Það eru í sjálfu sér ekki ný sannindi að samningar um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga taki tíma. Ég tel, hæstv. forseti, að það sé fyllilega eðlilegt að menn taki sér tíma í það. Hins vegar liggur fyrir sameiginlegur vilji forustumanna sveitarfélaganna og ríkisvaldsins að ná saman um tiltekin atriði í þeim efnum. Við horfum til talsverðrar sameiningar sveitarfélaga og eflingar sveitarstjórnarstigsins og það er sameiginlegur skilningur þeirra aðila sem að því koma að frá þeim málum verði ekki gengið öðruvísi en sátt hafi tekist um tekjuskiptinguna og að verkefnunum fylgi þeir tekjustofnar sem til þurfa.