Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 18:42:07 (141)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:42]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að sú umræða sem við áttum hér fyrr í dag um að einstakir ráðherrar væru hér til andsvara hefur að mínum dómi orðið til góðs. Vel má vera að þeir hefðu komið til umræðunnar án þeirra athugasemda sem við í stjórnarandstöðunni gerðum en ég vona að þetta verði framvegis hefð í þinginu að ráðherrar séu viðstaddir 1. umr. og reyndar umræðu um fjárlög og svari fyrirspurnum. Það fer ágætlega á því að þeir geri það í andsvörum eins og hér var gert þó að mér væri hugsað til þess þegar þeir komust ekki yfir að svara öllum spurningum að sá kostur er náttúrlega opinn fyrir ráðherrann að óska eftir orðinu og flytja ræðu ef þeir svo kjósa.

Hæstv. forseti. Í gær var flutt stefnuræða forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsætisráðherra kom víða við, fjallaði meðal annars um velferðarkerfið. Hann sagði þar m.a., með leyfi forseta:

„Heilbrigðisþjónustan er meginstoðin í þeirri samfélagsþjónustu sem víðtæk sátt er um í okkar samfélagi.“ Þetta held ég að sé rétt. Og hæstv. forsætisráðherra sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„Öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn er kjarninn í velferðarkerfinu.“ Ég er sammála þessu. Og enn segir: „Sú þjónusta á að standa öllum opin, óháð efnahag.“ Sammála. „Sjúklingar standa alltaf höllum fæti og sáttin um velferðarkerfið byggist ekki hvað síst á þeim almenna vilja að hjálpa þeim sérstaklega.“ Ég er sammála þessu.

Ég held að það sé líka rétt að um þetta er sátt í samfélaginu. Þetta eru orðin, en hverjar eru athafnirnar? Hvernig stendur á því að lagt er fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir að hækka komugjöld í heilsugæslu um samtals 26,2 milljónir og komugjöld til heilbrigðisstofnana eiga að hækka um 20,6 milljónir? Hvernig kemur þetta heim og saman við yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra og hvernig kemur það heim og saman við yfirlýsingar hans að Landspítalinn – háskólasjúkrahús og reyndar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu hafa þurft að sæta afarkjörum, grípa til strangra aðhaldsaðgerða sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að væru mjög vel heppnaðar á Landspítalanum? Í hverju felst það? Fjölda starfsmanna var sagt upp störfum. Álagið víða á deildum sjúkrahússins hefur stóraukist. Deildir sem voru opnar alla vikuna loka núna um helgar. Ég vísa t.d. til öldrunardeilda. Eru þetta vel heppnaðar aðgerðir?

Í öðrum tilvikum hefur sjúkrahúsið verið knúið til að einkavæða þjónustu og það skil ég vel að er vel heppnað samkvæmt pólitískum skilningi hæstv. fjármálaráðherra, Geirs H. Haardes, því að þetta er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn fylgir og hefur knúið Framsókn til að framkvæma.

En öryggi hefur verið aukið á öðrum vígstöðvum þó að dregið hafi úr því gagnvart þeim sem standa höllum fæti, sjúklingunum, þ.e. hjá hæstv. dómsmálaráðherranum okkar, honum Birni Bjarnasyni, og það geysilega. Á því hefur hæstv. forsætisráðherra mikinn skilning.

Hann fór um þetta orðum í stefnuræðu sinni í gær og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Á liðnum vetri samþykkti ríkisstjórnin tillögu dómsmálaráðherra um að breyta skipulagi sérsveitar lögreglunnar og að hún skyldi efld á næstu árum. Unnið hefur verið í samræmi við það og verður fjölgað í sveitinni á næsta ári.

Efling sérsveitarinnar er í samræmi við alþjóðlega þróun. Ríkisvaldið þarf að gera meiri og öflugri ráðstafanir en áður til að tryggja öryggi hins almenna borgara.“

Þarna á að grípa til hertra öryggisráðstafana, auka fjárframlag, á sama tíma og skorið er niður við þá sem raunverulega standa höllum fæti í samfélaginu. Þetta er hinn pólitíski veruleiki sem okkur hefur verið boðaður bæði í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í gær og síðan í fjárlagafrumvarpinu sem er í rauninni framkvæmd á þessari stefnu.

Ég ætla að nota þessar örfáu mínútur sem ég á eftir til þess að víkja að enn öðru sem fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra hér í gær. Það snýr aftur að öryrkjunum.

Hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar deila á ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið við fyrirheit við öryrkja. Staðreyndir málsins eru þær, að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar hefur verið viðurkennd með því að tvöfalda grunnlífeyri þeirra. Rúmum milljarði króna var varið til þessa verkefnis. Ekki nóg, ekki nóg, segir stjórnarandstaðan, og krefst frekari framlaga, og neitar að horfast í augu við umtalsverðan samfélagslegan vanda sem kann að vera að skapast vegna mikillar fjölgunar öryrkja.

Halda menn að fjölgun öryrkja um 50% á sex árum segi ekki til sín í bókhaldi Tryggingastofnunar ríkisins?“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra hér í gær. Við höfum áður hér við umræðuna farið yfir samninginn sem gerður var við Öryrkjabandalag Íslands og hvernig hann var brotinn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við höfum farið rækilega í saumana á þessu. En mig langar nú í lokin á minni ræðu til að gefa ágætum formanni Öryrkjabandalags Íslands, Garðari Sverrissyni, orðið. Ég ætla að vitna í grein sem hann hefur skrifað og birtist m.a. á vef Öryrkjabandalagsins.

Garðar Sverrisson formaður Öryrkjabandalagsins segir m.a. í grein sinni, með leyfi forseta:

„Í umræðunni hefur því ítrekað verið slegið upp að öryrkjum hafi fjölgað um 50% frá miðbiki síðasta áratugar. Án nánari skoðunar og samhengis er eðlilegt að við hrökkvum við og spyrjum okkur hvað sé eiginlega á seyði, hvort heilsu okkar hafi farið svona ört hnignandi eða tryggingalæknum orðinn svona laus penninn.

Til að vitræn umræða geti orðið um þessi mál verðum við í fyrsta lagi að gera okkur grein fyrir því hvað örorkulífeyrisþegar eiga sameiginlegt. Það sem þeir eiga öðru fremur sameiginlegt er að þeir eru fólk sem vegna fötlunar sinnar, jafnvel lítils háttar fötlunar, er ekki talið uppfylla þær ört harðnandi kröfur sem gerðar eru á íslenskum vinnumarkaði. En hvers vegna skyldu kröfurnar hafa farið svona ört harðnandi?

Svarið er sú gerbreyting sem hér hefur orðið á atvinnustigi — á eftirspurn eftir vinnuafli. Allt fram á síðasta áratug hafa fatlaðir Íslendingar átt því láni að fagna að hér hefur verið mjög mikil og góð eftirspurn eftir vinnuafli, raunar svo mjög að á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var atvinnuleysi liðlega 0,5% að meðaltali. Síðan þá hefur það á hinn bóginn verið í kringum 3%. Viðvarandi atvinnuleysi hefur því að minnsta kosti aukist um 500% — tíu sinnum meira en nemur hlutfallslegri fjölgun öryrkja.

Þegar litið er til vígstöðu fatlaðra í samkeppni við fullfrískt fólk á vinnumarkaði vekur þessi samanburður auðvitað athygli. Rennir hann stoðum undir þá reynslu okkar hjá Öryrkjabandalagi Íslands að fáir leggja harðar að sér en fatlaðir til að halda atvinnu sinni. Virk þátttaka virðist þá fyrst verða okkur ómissandi þegar við stöndum frammi fyrir því að eiga hennar e.t.v. ekki kost.“

Þetta voru orð Garðar Sverrissonar formanns Öryrkjabandalags Íslands og ég vil gera orð hans að lokaorðum mínum við þessa 1. umr. um fjárlög.