Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 19:33:21 (150)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:33]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Úr sínum háa söðli kaus hæstv. fjármálaráðherra að tilgreina hvað væri viðeigandi og hvað ekki við þessa umræðu og við virðingu þingsins. Því fylgdi hann síðan eftir með því að lýsa því yfir hér úr ræðustólnum að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson væri ómerkilegur. (Fjmrh.: Ómerkilegur málflutningur.) Hæstv. fjármálaráðherra verður auðvitað að velja sér þau orð sem hann telur hæfa.

Hvað var það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson vakti athygli á og gerði hæstv. fjármálaráðherra svona reiðan? Það var að í þeirra eigin frumvarpi sögðust þeir breyta yfir á rekstrargrunn til þess að fjárlögin yrðu fullkomlega sambærileg ríkisreikningnum. Hér segir hæstv. fjármálaráðherra: Það er nú ekki hægt að sjá þetta allt saman fyrir. Það er út af fyrir sig eðlilegt. Auðvitað geta menn skilið það. Hæstv. fjármálaráðherra veit að skekkjan er alltaf í sömu áttina. Það er ekki einn milljarður eða tveir. Nei, árum saman 20–30 milljarðar á ári, á nokkrum árum yfir 100 milljarðar. Þó að sumt af því komi ekki til greiðslu nú þegar heldur muni koma til greiðslu á næstu áratugum er ekkert hægt að líta fram hjá því. Um þetta fjallaði Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni í sumar, og átaldi. Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra hefði heldur kosið að ekki væri talað um þá skýrslu hér. Hún er sannarlega ekki góður vitnisburður um það með hvaða aðhaldi og reglufestu hann hefur annast um framkvæmd fjárlaga síðan hann settist í stól hæstv. fjármálaráðherra.

Ómerkilegan ætla ég þó ekki að kalla framgang hans hér en hann hlýtur að skýra framgang sinn nokkru betur.