Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Mánudaginn 11. október 2004, kl. 18:23:17 (325)


131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[18:23]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Eitt af því sem menn hafa rætt í þessu sambandi og skiptir verulegu máli er offjárfesting eða tvíverknaður eða þríverknaður eða hvað við köllum það. Menn hafa stundum líkt grunnneti fjarskiptanna við vegakerfið og það er ekki galin líking og menn sjá þá best hversu gáfulegt væri að einkaaðilar færu að leggja vegi við hliðina á þjóðvegunum. Það væri hvorki mjög hagkvæmt né umhverfisvænt ef margir einkaaðilar færu að leggja hver sinn veginn.

Út af fyrir sig er það alveg rétt að á grundvelli fjarskiptalaga er mönnum tryggður aðgangur að fjarskiptanetinu eins og það er á hverjum tíma. Nú verður það einkavætt og til verður einkafyrirtæki hvort sem það er með annan fótinn í útlöndum eða ekki og það er svo í samkeppni við aðra aðila innan lands. Það fer þá auðvitað að horfa á stöðu sína í samkeppnisljósi og fer að ráðstafa fjármunum sínum í fjárfestingar og uppbyggingu sem það telur að styrki mest samkeppnisstöðu þess. Hvar eru mikilvægustu markaðirnir? Þeir eru í þéttbýlinu. Þetta er saga sem við þekkjum annars staðar frá og hefur skapað geysileg vandamál. Ég hef verið að reyna að rifja upp fyrir mönnum og minna þá á reynsluna t.d. frá Nýja-Sjálandi. Svíar hafa af þessu nokkra reynslu. Þeir mega þó eiga það að þeir hafa mótað opinbera stefnu um að reyna að tengja sem flesta við upplýsingasamfélagið og hvað hafa þeir gert? Þeir hafa einmitt reynt að setja opinbera fjármuni í útboð til þess að útbreiða netið. En það hefur ekki gefið mjög góða raun vegna þess að þeir eru komnir inn í það umhverfi sem stjórnarliðar ætla að fara að búa til. Á sama tíma hafa þau lönd sem áfram hafa haldið sínum opinberu símfyrirtækjum farið fram úr. Ísland og Færeyjar eru miklu betur sett í dag en hin Norðurlöndin. Færeyingar eru komnir lengst allra Norðurlanda í að útbreiða t.d. stafrænt sjónvarp í sínu landi í gegnum sitt opinbera símafyrirtæki.