Túlkun fyrir heyrnarlausa

Þriðjudaginn 12. október 2004, kl. 13:48:21 (332)


131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:48]

Dagný Jónsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir umræðuna. Eins og við vitum þá eru einangrun og hindranir heyrnarlausra afar miklar. Hlutverk tungumálsins er mikilvægt í daglegum samskiptum okkar. Það er erfitt til þess að hugsa að geta ekki stundað ýmsar athafnir í daglegu lífi vegna þess að enginn skilur mann og maður skilur engan.

Forsvarsmenn Félags heyrnarlausra hittu þingflokk Framsóknarflokksins í gær og skýrðu frá hugmyndum sínum um hvernig væri hægt að leysa úr brýnum vanda varðandi túlkaþjónustu. Mér þóttu kröfurnar hóflegar og afar vel unnar og fagna mjög ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar um að leggja til fjármagn í þetta mál.

Heyrnarlausir eiga rétt á að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Stjórnvöld vinna að því með því útspili sem hæstv. menntamálaráðherra kynnti áðan. Án efa mun aukin túlkaþjónusta skila þjóðfélaginu öllu auknum ávinningi.

Ég vil af þessu tilefni hvetja stofnanir og fyrirtæki í landinu til að huga frekar að þörfum heyrnarlausra með því að senda starfsmenn, jafnvel bara starfsmann, á námskeið til að læra táknmál. Ég held að slíkt mundi fljótt vinda upp á sig með aukinni þjónustu fyrir heyrnarlausa.