Túlkun fyrir heyrnarlausa

Þriðjudaginn 12. október 2004, kl. 13:53:23 (335)


131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:53]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka þátt í fagnaðarlátunum. Heyrnarlausum hefur tekist það sem okkur tekst ekki mjög oft í þessum sal, þ.e. að virkja velvilja ríkisstjórnarinnar. Það er nokkuð djúpt á honum allt of oft. En það er mikilvægt að horfa til þess sem er gott hjá okkar í málefnum heyrnarlausra. Þá er fyrst á það að líta að við höfum góðan grunn að byggja á.

Réttindi heyrnarlausra heyra undir menntamálaráðuneytið en í því felst mikilvægur vísir að viðurkenningu á táknmáli sem móðurmáli heyrnarlausra. Í námskrá grunnskóla er þeirri hugsun fylgt eftir. Þar segir að heyrnarlaust barn skuli læra táknmál og síðan íslensku á grundvelli þess.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er einnig skilgreindur réttur til tjáningar á eigin máli en síðan ekki söguna meir í landslögum. Samfélagið viðurkennir skyldur sínar með ýmsum hætti. Samskiptamiðstöðin var mjög mikilvægur áfangi á sínum tíma og kennsla við Háskóla Íslands einnig. Framhaldsskólar, Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands axla að fullu eða að hluta ábyrgð sína og skyldur gagnvart nemendum. Sama gildir um sveitarfélög en allt er þetta háð geðþótta. Réttur hins heyrnarlausa er t.d. ekki sá sami í Reykjavík og Garðabæ, svo dæmi sé tekið.

Fyrsta atriðið sem ég vil leggja áherslu á er að hinn lagalega rétt þarf að tryggja á öllum stigum. Ekki er nóg að tryggja rétt heyrnarlauss barns í grunnskóla. Það þarf einnig að tryggja réttinn og þjálfunina á fyrstu aldursárunum áður en barnið kemst á það skólastig. Við höfum grunninn og nú þarf að gera að því gangskör að byggja betur á honum. Það styðjum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði heils hugar.

Síðan er hitt, að tryggja rétt hins heyrnarlausa utan stofnana hins opinbera. Hvað er átt við með því? Jú, það er að gera heyrnarlausu fólki kleift að taka þátt í daglegu lífi, kaupa sér íbúð, tala við lögfræðing, fara á námskeið, taka þátt í fermingarveislu eða sækja AA-fundi ef þörf er á slíku. Það er að því sem þetta sérstaka átak sem nú á að hrinda af stokkunum beinist. Ég fagna því að þessir peningar skuli reiddir fram og legg áherslu á að barátta heyrnarlausra og það sem við erum að fást við hér lýtur að mannréttindum.