Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 13. október 2004, kl. 14:28:33 (422)


131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

103. mál
[14:28]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ekkert er núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra jafnmikið á móti skapi og þegar hlutirnir ferðast með hraða snigilsins, sérstaklega ef það gerist innan landbúnaðarráðuneytisins. Hæstv. ráðherra talaði um það í fyrra að hann ætlaði að skoða málið. Hann hefur haft það til skoðunar töluvert lengi en það bólar ekki á neinum framkvæmdum.

Ég er þeirrar skoðunar að það væri hagkvæmt fyrir ráðuneytið og fyrir þessar tvær stofnanir að þeim yrði rennt saman. Ég er reyndar þeirrar skoðunar almennt að það sé stofnunum íslensku ráðuneytanna til baga hversu smáar þær eru og að það eigi að fækka þeim með því að styrkja þær og sameina. En mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra af því að hann hefur þrátt fyrir allt verið að sameina stofnanir með nokkuð góðum árangri, ég er þá að tala um hinn nýja landbúnaðarháskóla. Hólaskóli var þar undanskilinn en er ekki rétt að styrkja Hólaskóla og ferskvatnsrannsóknir í landinu með því að sameina Veiðimálastofnun og Hólaskóla?