Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 13. október 2004, kl. 14:29:39 (423)


131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

103. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur verið prýðileg umræða og ég þakka hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í henni og koma með nýjar og ferskar hugmyndir og minna á fyrri umræðu og samantekt um kosti sameiningar. Sjálfur er ég sannfærður um að það á að ráðast í þessa sameiningu strax í kjölfar sameiningar landbúnaðarháskólanna í fyrravetur sem ég vona að muni takast mjög vel og verða farsæl fyrir bæði landbúnaðarfræðslu og landbúnaðinn í heild sinni allan þar sem öflugur landbúnaðarháskóli og öflugar rannsóknastofnanir á hans vegum auk að sjálfsögðu hins góða landbúnaðarháskóla á Hólum, muni færa landbúnaðinum í heild sinni mörg ný tækifæri til sóknar og útrásar, enda er það örugglega megimarkmið og verkefni okkar allra sem viljum landbúnaðinum allt hið besta.

Það eru ákveðin vonbrigði að landbúnaðarráðherra skuli ekki hafa hrint þessu ferli af stað en ég bjóst við því miðað við jákvæðar undirtektir hans í fyrra. En um leið fagna ég því að hann skuli áfram taka mjög jákvætt undir þær hugmyndir að sameina Landgræðsluna og Skógræktina í eina öfluga stofnun sem hefði það að markmiði að endurskoða bæði verkefni og markmið slíkrar stofnunar, hvert það ætti að leiða. Ég vona að slík grundvallarstofnun á sviði landverndar og landgræðslu hvers konar muni færa okkur aukin tækifæri til að nýta þá miklu auðlind sem landið er og getur orðið. Fái þessar stofnanir aukinn byr í seglin með sameiningu eins og við ræðum um hérna held ég að þessu gæti fleygt mjög hratt fram. Ég held að ráðherra ætti ekki að hika við að hrinda þessu ferli af stað, að sjálfsögðu í samráði við þá sem vinna í stofnunum og að sjálfsögðu á að gera það innan frá eins og hann ræddi um. Það er eina vitræna leiðin. Eftir að hafa heyrt í ýmsum sem í þessum stofnunum starfa þá er að mínu mati mikill vilji til þess víða að ráðast í slíka sameiningu.