Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 10:37:09 (447)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

159. mál
[10:37]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það skulum við svo sannarlega vona að breytingarnar á virðisaukaskattskerfinu leið til hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Ég veit að hugur hæstv. fjármálaráðherra stendur til þess. Mér er mætavel kunnugt um að hæstv. fjármálaráðherra er þeirrar skoðunar að breyta eigi virðisaukaskattskerfinu þannig að það sé kleift í ákveðnum áföngum að lækka virðisaukaskatt á tilteknum varningi. Hæstv. ráðherra og flokkamenn hans lýstu því mjög ítarlega í kosningabaráttunni og einnig hefur komið fram í umræðum í þinginu að sjálfstæðismenn fylgja flestir en ekki allir kannski þessu máli. Það hefur komið fram í umræðum á þessu ári og líka á síðasta ári.

Staðreyndin er einfaldlega sú að það er einn flokkur sem leggst þvert gegn þessu þjóðþrifamáli og það er Framsóknarflokkurinn. Það er málið. Þess vegna er ekki við hæstv. fjármálaráðherra að sakast í þessu efni. Þar er við hæstv. forsætisráðherra og Framsóknarflokkinn að sakast. En ég ætla ekki að ræða það frekar, herra forseti.

Einungis til að enda þar sem ég byrjaði vil ég lýsa því yfir að það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er prýðilegt frumvarp sem miðar að því að gera kerfið einfaldara fyrir fyrirtækin í landinu og það er jákvætt. Við í Samfylkingunni erum þeirrar skoðunar að það eigi að gera. Við erum líka þeirrar skoðunar að bæta eigi kerfið þannig að það sé til enn frekari hagsbóta líka fyrir neytendur í landinu og um það held ég að ég og hæstv. fjármálaráðherra séum sammála.