Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 10:39:41 (449)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[10:39]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Síðar í dag fer fram umræða á þinginu um málefni geðsjúkra og þar verða væntanlega ræddar hugmyndir um hvernig eigi að bæta stöðu þeirra í heilbrigðiskerfinu. Það kostar peninga. Í vikunni ræddum við málefni heyrnarlausra og hvernig hægt væri að bæta aðstöðu þeirra með túlkaþjónustu. Það kostar peninga.

Mér finnst stundum koma fram nokkuð mótsagnakennd afstaða manna þegar skattamálin eru annars vegar og velferðarmálin hins vegar. Menn vilja margir draga úr tekjum ríkisins, lækka skatta en jafnframt stórbæta alla þjónustu sem kostar mikla peninga. Í þessu er fólgin mikil mótsögn. Ég virði að sönnu það sjónarmið sem sumir tefla fram í slíkri umræðu að lækkun skatta geti þegar allt kemur til alls orðið til þess að auka skatttekjur hins opinbera, skattheimtan verði betri. Þetta er sjónarmið sem t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur oft teflt fram. En þegar áform stjórnmálaflokkanna voru kynnt fyrir síðustu kosningar var beinlínis um það rætt af hálfu held ég allra flokka nema Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að draga bæri úr skattheimtu ríkisins. Menn töluðu þar um jafnvel tugi milljarða sem menn ætluðu að lækka skattheimtu ríkisins. Þetta eru sömu aðilar og lofa síðan miklum úrbótum og aukinni þjónustu sem kostar peninga.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum reynt að vera sjálfum okkur samkvæm í þessu efni vegna þess að við viljum stórbæta velferðarþjónustuna og höfum þess vegna verið með miklar efasemdir um að draga úr skattheimtu ríkisins. Við viljum alls ekki fara þá leið.

Nú er það vissulega svo að hægt er að forgangsraða á annan hátt en gert er hjá ríkinu. Hægt er að nota skattféð á annan hátt en gert er. Það er t.d. hægt að stórbæta stöðu geðveikra með því að hætta við að verja fjórðungi úr milljarði til að reisa sendiherrabústað í Berlín, svo dæmi sé tekið, eða verja 900 milljónum kr. í sendiráðsbyggingu í Japan. Vissulega er hægt að forgangsraða á annan hátt.

En það er líka hægt að gera annað. Hægt er að forgangsraða við sjálfa skattheimtuna. Sú þróun hefur verið mjög áberandi á undanförnum hálfum öðrum áratug í valdatíð Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokki og síðan með Framsóknarflokki, hver þessi forgangsröð er. Skattbyrðum hefur verið létt af efnamönnum og fyrirtækjum sérstaklega en skattheimta aukist á þeim sem minnstar hafa tekjurnar og þar vísa ég til þess að skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróun.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram tillögur um breytta forgangsröðun í skattheimtu. Nú er það svo að skattar eru tvennt í senn: Þeir afla hinu opinbera ríki og sveitarfélögum tekna en þeir eru líka jöfnunartæki, þeir jafna tekjurnar. Það sem við leggjum til er að fjármagnstekjuskatturinn sem núna er 10% verði hækkaður í 18%. Við leggjum þó til, og það skiptir miklu máli, að komið verði á sérstökum skattleysismörkum varðandi fjármagnstekjurnar og þar horfum við á 120 þús. kr. á ári í fjármagnstekjur, að þær verði ekki skattlagðar. Ég ætla að fara yfir þessa hugsun og fyrst líta á stærðargráðurnar.

Í frumvarpi til fjárlaga árið 2004 var skattur á fjármagnstekjur áætlaður á rekstrargrunni 5.600 millj. kr. Niðurstaðan varð talsvert hærri eða rúmir 7 milljarðar. Samkvæmt þessu frumvarpi mundu tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast talsvert og má ætla að þær yrðu rúmir 10 milljarðar kr. eða sem svarar aukningu upp á rúmlega 3 milljarða, við mundum afla hinu opinbera 3 milljarða. Sem áður segir leggjum við til að skattleysismörk verði 120 þús. kr. á ári hjá einstaklingum. Við einskorðum þessi skattleysismörk við einstaklinga.

Í ljós kemur að við þetta má ætla að 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt verði undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt að þessu leyti er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem yfirleitt hefur megintekjur sínar af launavinnu. Við erum með öðrum orðum fyrst og fremst að skattleggja hátekjufólkið, fólk sem hefur miklar tekjur af fjármagni. Við erum að hlífa smásparandanum.

Þetta eru svolítið sláandi tölur, að það sé þetta hátt hlutfall sem við erum að létta þarna skattbyrðum af. Við erum að undanþiggja mjög stóran hóp fjármagnstekjuskatti. En við erum að sönnu að auka skattheimtuna á þeim sem hafa miklar tekjur af fjármagni.

Á undaförnum árum hefur þeim einstaklingum fjölgað hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir. Vinnandi fólk greiðir af launum sínum rúm 38,5% af samanlögðum tekjuskatti og útsvari og allt að 45% að viðbættum hátekjuskatti.

Tekjur þeirra auðugustu í landinu, þ.e. þeirra sem eiga fjármagnið og þeirra sem byggja hluta tekna sinna á hlutabréfakaupum eða kaupréttarsamningum, eru aftur á móti mestmegnis fjármagnstekjur og af þeim greiða þeir eins og fyrr segir aðeins 10% skatt.

Við viljum að brugðist verði við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu og því óréttlæti sem stafar af misræmi í skattlagningu fjármagnstekna og launa. Þá mun sú lagabreyting sem hér er lögð til afla ríkissjóði aukinna tekna, sem áður segir, til að standa straum af nauðsynlegri velferðarþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í fyrirkomulag í nokkrum ríkjum. Við tökum sem dæmi Bandaríkin, Bretland, Finnland, Írland, Danmörku og Svíþjóð. Í ljós kemur þegar þetta er skoðað, þegar fjármagnstekjuskattur er skoðaður í öðrum ríkjum er hann víðast hvar miklu hærri en hér. Það er of mikil einföldun að vísa þar í einhverjar ákveðnar prósentur vegna þess að iðulega er flókið samspil á milli skattleysismarka og síðan getur verið um það að ræða að prósentan sé háð því hve miklar tekjurnar eru. Ég ætla aðeins að stikla á þeim upplýsingum sem hér eru reiddar fram.

Í Bandaríkjunum er notað stighækkandi skatthlutfall sem ræðst af tekjum og félagslegri stöðu fólks, allt frá 10% og upp í 38,6%. Í Bretlandi eru fjármagnstekjur af sparifé með 20% skatti í lægri flokknum en 40% í hæstu flokkunum. Í Danmörku eru fjármagnstekjur skattlagðar með öðrum tekjum, innheimtur er 28% skattur af arðgreiðslum upp að 41 þús. kr. en 43% af hærri upphæðum. Á Írlandi bera fjármagnstekjur yfirleitt flatan 20% skatt en í undantekningartilfellum er skattprósentan 40%. Í Kanada eru fjármagnstekjur yfirleitt skattlagðar með lægra skatthlutfalli þar sem aðeins þarf að greiða skatt af helmingi hreinna fjármagnstekna. Í Noregi eru fjármagnstekjur skattlagðar með almennum tekjum, hreinum tekjum, og þar er skattlagningin að hámarki 28%. Í Svíþjóð er flatur skattur, fjármagnstekjur í Svíþjóð bera 30% flatan skatt.

Ég stikla aðeins á þessum upplýsingum en þær eru skilmerkilega fram settar í greinargerð með frumvarpinu. En það sem er áhugaverðast er að víðast hvar eru fjármagnstekjur miklu hærri en þær eru hér á landi og fellur þá sú röksemd sem iðulega hefur verið teflt fram gegn hækkun á fjármagnstekjuskattinum að menn fari einfaldlega til annarra landa með peningana ef fjármagnsskatturinn yrði hækkaður hér. Ja, hvert ættu menn að fara? spyr ég.

Við vitum hvert menn fara, hvert úrræðið er. Það er í skattaparadísir þar sem peningarnir eru þvegnir og faldir. Það er nokkuð sem OECD hefur reynt að bregðast við með því að setja samræmdar reglur. Evrópusambandið hefur einnig reynt að taka á þessu máli. Íslendingar fengu ábendingu um það fyrir fáeinum árum að samstarfsverkefni sem viðskiptaráðuneytið og Verslunarráðið unnu að fyrir tugi milljóna króna af skattfé kynni að stangast á við þær reglur eða þá viðleitni, ganga gegn þeirri viðleitni sem OECD hafði í frammi til að sporna gegn neikvæðri skattasamkeppni að þessu leyti.

En við vitum að taka þarf á annan hátt en með skattlagningunni eða skattprósentunni á peningaþvætti og þeim flótta inn í skattaparadísirnar á Ermarsundinu og í Karíbahafinu, í Lúxemborg og víðar. Við eigum ekki að láta það stjórna afstöðu okkar eða skattapólitík. Við erum með öðrum orðum með miklu lægra skatthlutfall en almennt gerist.

Í samfélaginu er mjög sterk krafa um að breyta skattlagningu á fjármagnstekjum. Það er gagnrýnt þegar skattskráin liggur frammi, þá er það sláandi hvernig þeir sem hafa mestar tekjurnar í þjóðfélaginu eru í raun undanþegnir skattlagningu, þeir búa við miklu betri kjör en gerist hjá almennu launafólki. Þeir borga einvörðungu 10% af fjármagnstekjum sínum í skatt en vinnandi fólk sem áður segir 38,5%.

Við leggjum til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins. Við stöndum öll að þessu, allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er stefna okkar flokks og tilraun til að byggja betur undir velferðarþjónustuna á Íslandi.