Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 10:56:58 (451)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[10:56]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem við nefnum eru niðurstöður af athugunum sem við höfum gert og í samráði við skattyfirvöld, við höfum borið þetta undir þá sem sýsla með þau efni hér. Þessir 3 milljarðar eru nettóávinningurinn af slíkum skattkerfisbreytingum.

Það er alveg rétt að ræða má hvort og þá hvernig eigi að haga skattleysismörkum á fjármagnstekjuskatti, en það sem fyrir okkur vakir er að hlífa smásparandanum, hinum almenna launamanni, fullorðnu fólki sem hefur lagt peninga fyrir. Það varð niðurstaða okkar að hlífa hinum almenna sparanda.

Reyndar fannst mér það sláandi að við 120 þús. kr. skattleysismörk á ári undanþiggjum við 90% þeirra sem nú greiða skattinn, við undanþiggjum þá skattlagningunni. Þetta eru mjög miklar tölur.

En þetta segir okkur annað. Það segir okkur hve miklar upphæðir er um að ræða þegar hátekjufólkið er annars vegar, hve margir hafa mikinn arð af peningum sínum og fjármagni.

En þetta varð sem sagt niðurstaða okkar, að hafa skattleysismörk á fjármagn 120 þús. kr. á ári en afla ríkissjóði eða hinu opinbera með þessum hætti 3 milljarða kr.