Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 12:15:49 (470)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:15]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eitthvert aumasta yfirklór sem ég hef séð hjá nokkrum framsóknarmanni og er þó miklu til að jafna í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að lágtekjufólk eyddi meira en hátekjufólk í brýnustu nauðþurftir. Ég sagði hins vegar, og það er auðvelt að sýna fram á það eins og hefur verið gert, að lágtekjufólk eyddi hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínar í nauðþurftir en hátekjufólk. (BJJ: Rétt.) Lágtekjufólk getur ekki farið í sérverslanir til að kaupa sér lambalundirnar sem hv. þm. ræddi hér um.

Nú ætla ég að rifja upp nokkrar staðreyndir úr sögu Framsóknarflokksins fyrir hv. þingmanni. Hann talaði um að Framsóknarflokkurinn vildi efla barnabótakerfið. Frá 1995–2003 plokkaði Framsóknarflokkurinn sem svaraði samanlagt á þessu tímabili 11,3 milljörðum af barnafólki í landinu með því að greiða minna í barnabætur. Þegar ég og hv. þm. sem nú situr í forsetastóli, hæstv. forseti Jóhanna Sigurðardóttir, stigum út úr ríkisstjórn um miðjan síðasta áratug voru barnabætur 1% af landsframleiðslu. Þegar hæstv. félagsmálaráðherra Páll Pétursson, með aðstoðarmanninn Birki Jón Jónsson, hafði verið nokkur ár í félagsmálaráðherrastóli — steig úr honum í kosningunum 2003 — voru barnabætur komnar niður í 0,55% af landsframleiðslu. Það var að vísu aðeins gefið í á því ári þannig að hlutfallið fór upp í 0,72% af landsframleiðslu.

Framsóknarflokkurinn lofaði ótekjutengdum barnabótum til allra barna til 16 ára aldurs. Hvar eru efndirnar? Ekkert nema svik og blekkingar.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem kemur í veg fyrir að matarskatturinn lækki. Því getur hv. þm. ekki neitað. Það hefur verið staðfest á þessum degi af hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, úr þessum ræðustól.