Strandsiglingar

Fimmtudaginn 14. október 2004, kl. 16:49:09 (524)


131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:49]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágæt ræða sem hv. þm. flutti og hann vakti máls á ýmsum umhugsunarverðum þáttum. En varðandi viðhorfið og að breyta viðhorfi þjóðarinnar þá liggur mér við að segja að mest þurfi að breyta viðhorfinu hjá okkur öllum hér í salnum. Ég minnist þess þegar Skipaútgerðin var einkavædd 1992 að mikið var býsnast yfir því hve mikill stuðningur kæmi úr ríkissjóði til strandsiglinganna. Ég held að menn hafi verið búnir að reikna sig upp í milljón á dag eða þar um bil. Það eru hins vegar smáaurar miðað við þá fjárfestingu sem menn urðu að ráðast í vegna allra þungaflutninganna á landi. Þessu hafa menn gleymt en nú er þetta að renna upp fyrir mönnum. Þetta er hluti af þessari viðhorfsbyggingu.

Við leggjum til útboð, hv. þm. nefndi skipaútgerð eða ríkisrekið fyrirtæki. Þó við séum ekki að leggja það til þá get ég alveg trúað mönnum fyrir því að ég er ekkert feiminn við að tala um ríkisrekstur og við megum gæta okkur svolítið á því að verða ekki svo hrædd við samfélagslega rekin fyrirtæki eða starfsemi að það verði nánast bannorð. Skipaútgerðin var sett á fót á sínum tíma til þess að leysa tiltekið vandamál efla samgöngur. Nú stöndum við enn á ný frammi fyrir þessu.

Spurningin sem ég ætlaði að beina til hv. þm. er þessi: Ef það fer svo að einhverjar siglingar fara af stað, einhver fyrirtæki sem vísa til sjóflutninga milli Reykjavíkursvæðisins og Vestfjarða og á öðrum leiðum, er ekki hætt við að slíkt kerfi yrði gloppótt? Við skulum ekki gleyma því að við erum háð duttlungum þessara fyrirtækja eftir sem áður.