Einkamálalög og þjóðlendulög

Mánudaginn 18. október 2004, kl. 16:42:01 (570)


131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[16:42]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að árétta að frumvarpið gengur út á að tryggja að fjármunir úr ríkissjóði til gjafsóknar renni til þeirra sem ekki hafa fjárhagslega burði til þess að fara í málaferli, hvers kyns málaferli. Ef einhver ætlar að fara í mál við ríkið án þess að hafa til þess fjárhagslega burði á hann rétt á gjafsókn. Það er ekkert flóknara en það.

Ég tel hins vegar að í þeim málaflokki sem hv. þm. ber sérstaklega fyrir brjósti og hefur gert að umtalsefni sé auðvelt að afla fjár á annan veg en að leita til ríkisins og það eigi ekki við almennt um þann málaflokk og þau mál sem hv. þm. ber fyrir brjósti. Þeim mun almennari sem málstaðurinn er og kröfugerðin í slíkum málum, þeim mun auðveldara er að afla fjár almennt til þess að fara í slík mál. Þar eiga ekki þau rök við sem eru grundvallarrökin á bak við hugmyndafræðina um gjafsókn, að auðvelda þeim sem hafa ekki fjárhagslega burði til þess að fara í mál, hvers kyns mál. Málið snýst um það en ekki hitt, að mismuna mönnum eftir því hvernig málatilbúnaðurinn er heldur að taka mið af því hvernig fjárhagslegir burðir einstaklinganna eru.

Mér finnst einkennilegt að þetta sjónarmið sé að engu haft í umræðunum og talið að það sé skortur á rökum þegar það er lagt til grundvallar, sem er grunnhugmyndin á bak við gjafsóknarhugmyndina frá upphafi til enda. Sérstakir hugsjónamenn geta svo alltaf bætt við og hengt einhverja pinkla og sagt: Í málaflokki mínum vil ég að ríkið borgi líka ef mér dettur í hug að fara í mál við ríkið eða einhvern annan.

Það er bara ekki þannig. Gjafsóknin snýst ekki um það heldur að sjá til þess að fólk sem ekki hefur fjárhagslega burði geti farið í málaferli.