Brottfall úr framhaldsskóla

Miðvikudaginn 20. október 2004, kl. 15:26:27 (706)


131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:26]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Brottfall er sorgarsaga bæði fyrir einstaklinga og samfélag. Fram kom á fundi fjárlaganefndar með fulltrúum menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis um daginn að fleiri gangi til prófs á framhaldsskólastigi nú en áður en það kom jafnframt fram á sama fundi að fjármálaráðuneytið hyggst ekki greiða til fulls fyrir þreyttar einingar. Þess sér m.a. stað í uppgjöri við skóla á framhaldsskólastigi og get ég nefnt sem dæmi að 20 nemendaígildi vantar upp á hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands fyrir síðasta ár. Ráðuneytið hyggst þannig refsa þeim skólum sem standa sig vel. Það er þá það sem til þarf til að hvetja skólana eða hitt þó heldur, og það var reyndar greinilegt á þessum fundi að það var ágreiningur á milli ráðuneytanna um hvernig fara ætti með þessi mál.