Kaup Landssímans í Skjá einum

Miðvikudaginn 20. október 2004, kl. 15:39:08 (715)


131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:39]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Kaup Landssímans í Skjá einum eru óskiljanleg, sama hvernig á þau er litið. Þau auka ekki verðmæti Landssímans áður en það fyrirtæki verður selt. Kaupin eru í algeru ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að einkavæða ríkisfyrirtæki því hér er verið að ríkisvæða einkafyrirtæki.

Hins vegar er ekki flókið að skilja skýringuna á kaupunum þegar maður skoðar málið. Sjálfstæðisflokkurinn er að nota sjóði ríkishlutafélagsins Landssímans til þess að bjarga flokksbræðrum sínum úr skuldasúpu Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. sem rekur Skjá einn og í leiðinni er Sjálfstæðisflokkurinn að koma sér upp sjónvarpsstöð til framtíðar.

Varnir ríkisstjórnarinnar hafa verið fáar en það eina sem hefur komið fram af hálfu hæstv. fjármálaráðherra er að kaupin auki verðmæti Landssímans. Það er bara rangt. Þrír sérfræðingar stórbankanna hafa verið spurðir um það í fjölmiðlum og enginn þeirra hefur treyst sér til að fullyrða um að það auki verðmæti fyrirtækisins. Þvert á móti hefur verið sagt að líklegt sé að það hafi lítil sem engin áhrif svo markaðurinn er ósammála því sem hæstv. ráðherra segir. Það er athyglisvert að allir þátttakendur í hjálparstarfinu fyrir Íslenska sjónvarpsfélagið tengjast innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins. Forstjóri Landssímans, sem hefur verið í trúnaðarkjarna forustu flokksins um langt árabil, hefur sagt að hann hafi lagt hugmyndina til við stjórn fyrirtækisins. Helstu ráðgjafar hans voru tveir, annar er yfirmaður þróunarsviðs Símans og sá var áður aðstoðarmaður forsætisráðherra, hinn er yfirmaður breiðbandsins og var kosningastjóri sama forsætisráðherra. Sá sem stærsti hluturinn var keyptur af er fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Það er því alveg sama hvar maður ber niður. Alls staðar er það kjarninn úr forustu Sjálfstæðisflokksins sem situr á fleti fyrir.

Hvað kostar hjálparstarfið við þurfandi vini Sjálfstæðisflokksins? Það fæst ekki einu sinni uppgefið. Það er í stíl við allt annað að verðið á hlutnum er leyndarmál. Hvílík vinnubrögð. Af því að hæstv. samgönguráðherra er í salnum hlýtur manni að verða hugsað til sóunarinnar sem í þessu felst varðandi dreifikerfið, því ofan á kostnaðinn kemur sóunin sem felst í því að ævintýrið mun væntanlega leiða til þess að ekki tekst samstaða um að byggja upp eitt dreifikerfi. Ævintýri Sjálfstæðisflokksins mun þegar upp er staðið leiða til milljarða sóunar í óþarfa dreifikerfi fyrir landsmenn.

Það vekur sérstaka undrun hvernig hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa blessað kaup Landssímans á Skjá einum í bak og fyrir. Þeir eru nýbúnir, ásamt ríkisstjórninni, að kjöldraga nánast allt samfélagið í ofbeldisfullri viðleitni til þess að knýja fram lög gegn því að markaðsráðandi fyrirtæki mættu eiga nema mjög takmarkaðan hlut í ljósvakamiðli. Var þá sú stefna og sá slagur bara allt í plati? Það er greinilegt. Það er greinilegt að markaðsráðandi fyrirtæki mega eiga eins mikið og þau vilja ef Sjálfstæðisflokkurinn þarf á því að halda, ef hann þarf að búa í haginn fyrir flokksgæðinga sína og ef hann þarf að búa í haginn fyrir notalega sjónvarpsstöð til framtíðarinnar því það er auðvitað ætlunin. Auðvitað á að sameina breiðbandið og Skjá einn og koma því svo í hendur réttra manna.

Um þetta snýst málið og ekkert annað og þá er sjálfsagt að henda prinsippum fyrir björg. Mér finnst, herra forseti, ömurlegt að sjá þetta gerast á 21. öldinni.

Herra forseti. Ég vil í tengslum við umræðuna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað kostaði hluturinn sem Landssíminn keypti í Skjá einum? Kemur sú 300 millj. kr. skuld sem fyrirtækið hefur í Landsbankanum til viðbótar þeirri upphæð?

Ég vil líka spyrja í tilefni af kaupunum hvort ríkisstjórnin sé fallin frá þeirri stefnu að berjast gegn því að markaðsráðandi fyrirtæki megi eiga nema mjög takmarkaðan hlut í ljósvakamiðli. Það er ekki úr vegi að spyrja líka hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála yfirmanni Ríkisútvarpsins um að það skjóti skökku við að ríkishlutafélagið Landssíminn hf. sé orðinn aðaleigandi að sjónvarpsfyrirtæki sem undirbýður RÚV innan lands á auglýsingamarkaði og yfirbýður það á efnismarkaði erlendis?

Að síðustu: Telur hann að það sé eðlilegt, líkt og útvarpsstjóri, að gengið verði úr skugga um hvort RÚV njóti sömu kjara hjá Landssímanum og dótturfyrirtækið eins og Skjá einn?