Kaup Landssímans í Skjá einum

Miðvikudaginn 20. október 2004, kl. 15:58:15 (721)


131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[15:58]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. 92% landsmanna hafa nú aðgang að svokallaðri ADSL-þjónustu Símans. Þetta er kjarni málsins í þessari umræðu vegna þess að tækninni hefur fleygt svo fram á allra síðustu árum að nú er hægt án verulegs kostnaðar að flytja stafrænt sjónvarpsefni um gamla koparvírinn, gömlu símalínuna, beint til neytandans. Þá hefur slík fjarskiptatenging það fram yfir tengingu um örbylgjunet að gagnkvæmni er innbyggð í hana þannig að hægt verður að panta sjónvarpsefni eða stöðva útsendingu eftir þörfum hvers og eins, en á það mun reyna mjög í framtíðinni.

Sjónvarpsvæðing ADSL-kerfisins mun gera það arðbært að láta það ná til enn fleiri staða úti á landi en nú er sem er keppikefli ýmissa byggðarlaga úti á landi eins og við þingmenn landsbyggðarinnar vitum fullvel. Með kaupum sínum á Skjá einum er búið að tryggja umferð og viðskipti um þessa nýju fjarskiptaleið, en það er auðvitað forsendan fyrir að ráðast í að byggja hana upp að einhver vilji nota hana. (Gripið fram í.) Samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins fá öll fjarskiptafyrirtæki, hvort sem Síminn á í þeim eða ekki, þjónustuna við sama verði. Þetta veit hv. þm. Össur Skarphéðinsson og væri honum nær að gefa ekki annað í skyn. Hin nýja fjarskiptaleið Símans opnar fyrir það að nýir aðilar geti stofnað og rekið sjónvarpsfyrirtæki sem ná til landsins alls. Stöð 2 og ríkissjónvarpið munu ekki lengur sitja ein að slíkri aðstöðu. Síminn er með öðrum orðum að opna dyrnar fyrir nýjum aðilum í sjónvarpsrekstri sem hingað til hafa verið þeim lokaðar. Það er forsendan fyrir frjálsri fjölmiðlun og frjálsri skoðanamyndun í landinu.