Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 10:46:34 (736)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:46]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er fáránlegt að íslenska ríkið sé að styðja auðmenn, búandi víðs fjarri, til mjólkurframleiðslu með vinnuafli á meðan margir bændur þyrftu að eiga kost á meiri framleiðslurétti. Nær væri að stuðningur ríkisins kæmi til þeirra. Hugsun löggjafans með nýlegum samningi við mjólkurframleiðendur var stuðningur við neytendur og að styrkja stöðu þeirra sem hafa framfæri sitt af landbúnaði, ekki að búa til lénsbændur og vinnuhjú. En lausnin á þessum vanda getur ekki falist í uppkaupum sveitarfélaga á bújörðum og framleiðslurétti, til þess eru þau flest allt of veikburða og það er ekki þeirra hlutverk.

Nýlegur samningur ríkisins við mjólkurframleiðendur er væntanlega hvatinn að þeirri þróun sem við ræðum hér en sá samningur er framleiðendum afar hagstæður og afkomutrygging til langs tíma. Við höfum mörg dæmi um kaup efnamanna á laxveiðijörðum og nú bætast við dæmin sem hér er rætt um en við höfum engin dæmi um að auðmenn fjárfesti í jörðum til sauðfjárræktar. Það er enn ein staðfestingin á smánarlegum kjörum bænda innan þeirrar búgreinar. Bændurnir bláfátækir, kjöt flutt út undir framleiðsluverði, þróun sláturhúsamála stjórnlaus og vitlaus.

Virðulegi forseti. Stuðningur ríkisins við íslenskan landbúnað er greinilega á villigötum þegar hann annars vegar lendir í vasa ríkisbubba sem ekki hafa framfærslu sína af landbúnaði og heldur hins vegar bændum í fjötrum fátæktar. Það er kannski ekki nema von að hann sé á villigötum þegar horft er til þess sem við urðum vitni að áðan, að sjá hæstv. landbúnaðarráðherra svífa á rósrauðu skýi og láta ekki svo lítið að svara þeim spurningum sem til hans var beint af hv. fyrirspyrjanda. (Gripið fram í.)